Gríska Esterarbókin er þýðing á Esterarbók Gamla testamentisins en í grísku þýðingunni eru auk þess sex viðaukar, bæði inngangur, eftirmáli og innskot í söguna. Þetta er smásaga frá annarri öld f.Kr. sem gerist í Persíu á fimmtu öld. Gyðingurinn Mardokaí kemur upp um samsæri gegn stórkonunginum Artaxerxesi. Einn æðsti embættismaður konungsins, Haman, leitast við að útrýma öllum Gyðingum vegna þess að Mardokaí vill ekki auðsýna honum lotningu. Ester, frænka Mardokaí og fósturdóttir, giftist Persakonungi og fyrir tilstilli hennar bjargast Gyðingar, hefna sín á óvinum sínum og halda hátíð, púrímhátíðina.
Viðaukar við Esterarbók Gamla testamentisins
Draumur Mardokaí: A, 1–17 (á undan 1. kafla)
Tilskipun um að útrýma Gyðingum: B, 1–7 (á eftir 3.13)
Bænir Mardokaí og Esterar um hjálp: C, 1–30 (á eftir 4.17)
Ester gengur fyrir Artaxerxes konung: D, 1–16 (á eftir C, 30)
Tilskipun um að bjarga Gyðingum: E, 1–24 (á eftir 8.12)
Draumur Mardokaí túlkaður og lokaorð þýðanda: F, 1–11 (bókarlok)