Esrabók er framhald kroníkubóka og greinir frá heimkomu Gyðinga úr útlegðinni í Babýlon eftir að Kýrus Persakonungur hafði heimilað þeim að snúa heim. Einnig segir bókin frá endurreisn musterisins í Jerúsalem og upphafi fórnarþjónustu í rústum musterisins. Þá er og greint frá störfum Esra við að endurskipuleggja söfnuðinn. Ritið er skrifað á tveimur tungumálum, 1.1–4.7 og 6.19–6.22 á hebresku en 4.8–6.18 á arameísku. Esra hefur jafnan verið talinn einn þeirra manna sem hafa haft mest áhrif á mótun gyðingdómsins. Einu heimildirnar sem varðveittar eru um hann eru Esra- og Nehemíabók.

Skipting ritsins

1.1–2.70 Heimför Gyðinga
3.1–6.22 Musterið endurreist og vígt
7.1–10.44 Heimför Esra ásamt öðrum Gyðingum