Bæn Manasse er lögð í munn Manasse konungi í Júda (696–642 f.Kr.). Hann hafði stuðlað að hjáguðadýrkun, brugðist Guði og lögmálinu og var fluttur í útlegð til Babýlonar. Í 2Kro 33.18–33.19 segir frá því að hann hafi flutt iðrunarfulla bæn og er hún sögð varðveitt í „Sögu Ísraelskonunga“ og „Sögu sjáandans“. Þessar bækur eru glataðar. Í fyrstu versum bænarinnar er Guð vegsamaður fyrir sköpunarverkið og miskunn við synduga menn. Því fylgir syndajátning og bæn um fyrirgefningu og frelsi. Bæninni lýkur á lofgjörð.