Ritið sem kennt er við Amos er elsta spámannaritið í Gamla testamentinu. Hann var fjárhirðir frá litlu þorpi í Júda en starfaði sem spámaður í Norðurríkinu (Ísrael) um miðja áttundu öld f.Kr. og boðaði fyrst og fremst dóm. Þetta var tími velmegunar og öryggis þar sem helgihaldið virtist einnig blómstra. En Amos sá að velmegunin var bundin við hina auðugu og byggðist jafnframt á kúgun smælingjanna. Amos hélt því fram að helgihaldið væri fánýtt ef það héldist ekki í hendur við rétt og réttlæti. Hann pré­dikaði einnig gegn rangtúlkun á útvalningunni og boðaði að hún fæli í sér ábyrgð. Hann boðaði einnig að Ísraelsríki mundi líða undir lok þar sem þegnar þess breyttu ekki eftir lögum Drottins. Hann hvatti þjóðina til að hata hið illa og elska hið góða. Þá mætti vera að Drottinn miskunnaði sig yfir þá sem eftir væru af ætt Jósefs (5.15).

Skipting ritsins

1.1–2.5 Dómur yfir nágrönnum Ísraels
2.6–6.14 Dómur yfir Ísrael
7.1–9.15 Fimm sýnir