Í Fyrri Samúelsbók er greint frá þeim breytingum sem urðu á stjórnarháttum í Ísrael þegar konungdæmið tók við af dómara-tímanum. Á þessu breytingaskeiði í sögu þjóðarinnar voru einkum þrír menn í brennidepli: spámaðurinn Samúel, sem var síðastur hinna miklu dómara, Sál, fyrsti konungurinn, og Davíð, kunnastur allra konunga Ísraels. Ýmsar frásagnir af atburðum í lífi hans, áður en hann komst til valda, eru fléttaðar inn í frásagnirnar af Samúel og Sál. Ýmsu öðru efni er skotið inn í megintexta ritsins. Þannig er til dæmis fjallað um sáttmálsörk Drottins í 4.–6. kafla. Meginboðskapur ritsins, eins og flestra sögurita Gamla testamentisins, er að trúfesti við Guð leiði til blessunar en óhlýðni til bölvunar. Þetta kemur skýrt fram í orðum Drottins til Elí prests í 2.30: „Ég heiðra þá eina sem heiðra mig og þeir sem fyrirlíta mig munu til skammar verða.“ Af bókinni er ljóst að skiptar skoðanir hafa verið um stofnun konungdæmisins. Af því að Drottinn sjálfur var konungur í augum þjóðarinnar álitu ýmsir að stofnun konungdæmis, að erlendri fyrirmynd, fæli í sér höfnun á Drottni. Í 8. og 12. kafla er konungdæminu nánast lýst sem refsingu Drottins. Má þar sjá hina neikvæðu afstöðu til þess. Hins vegar er konungdæmið metið jákvætt í kafla 9.1–10.16.
Skipting ritsins
1.1–7.17 Af Samúel og Elí
8.1–15.35 Samúel og Sál
16.1–31.13 Sál og Davíð