Höfundur Júdasarbréfsins kynnir sig sem þjón Jesú Krists og bróður Jakobs (1. vers) og er þar að líkindum átt við Jakob, bróður Drottins (sbr. Jakobsbréfið). Bréfið er mjög skylt Síðara Pétursbréfi. Efni þess er sú „trú sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld“ (1.3). Höfundur hvetur og uppörvar lesendur sína og með dæmum úr sögu Gyðinga varar hann þá við að falla frá trúnni. Jafnframt minnir hann þá á ábyrgð þeirra gagnvart þeim efablöndnu.