Um margra alda skeið hafa menn samið ýmis tónverk um „sjö síðustu orðin“ sem Kristur talaði af krossinum. Eitt hið frægasta þessara verka er Sjö síðustu orð endurlausnarans á krossinum eftir Franz Joseph Haydn. Verkið var kostað af Cadiz-dómkirkjunni á Spáni fyrir helgiþjónustuna í páskavikunni og frumflutt árið 1787. Haydn skrifaði það upphaflega sem hljómsveitarverk, en gaf seinna út aðra gerð fyrir strengjakvartett. Enn eina útgáfu gerði hann fyrir kór og hljómsveit. Sellóleikarinn Julian Armour hefur kallað þetta tónverk „einstaklega fágað og himneskt í fegurð sinni,“ verk sem búi yfir „svo víðfeðmri dýpt, að það talar til hljómlistarmanna og tónlistarunnenda af öllum þjóðernum og trúarbrögðum.“
„Sjö síðustu orðin“ eru tekin saman úr sjö síðustu setningunum sem hafðar eru eftir Jesú í guðspjöllunum fjórum:
1. Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera. (Lúk 23.34)
2. Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? (Mt 27.46, Mk 15.34, Sálm. 22.1)
3. Kona, nú er hann sonur þinn. Nú er hún móðir þín. (Jóh 19.26, 27)
4. Mig þyrstir. (Jóh 19.28)
5. Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís. (Lúk 23.43)
6. Það er fullkomnað. (Jóh 19.30)
7. Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn! (Lúk 23.46)