Flæmski listamaðurinn Peter Paul Rubens (1577-1640) lýsir hryllingi bróðurmorðs í málverki sínu Kain myrðir Abel.
Rubens var flæmskur listmálari og helsti frumkvöðull barokklistar á Niðurlöndum. List hans er lýst þannig að í myndum sínum sameini hann nákvæmni og jarðbundinn kraft Flæmingjans og glæsileik ítölsku málaranna. Seinni árin urðu verk Rubens mildari og ljóðrænni.
Frægð Rubens byggðist á óviðjafnanlegum hæfileikum til að skipuleggja stórar og litríkar myndir og glæða þær gleði og krafti. Myndefni sitt sótti hann jafnt í trúarleg, goðsöguleg og söguleg þemu auk þess sem hann var framúrskarandi portrettlistamaður.
Í myndum hans sameinast ríkt ímyndunarafl, létt handbragð, hraði og frásagnargleði þar sem hið náttúrulega og hið yfirnáttúrulega, ímynd og veruleiki blandast saman eins og á stóru leiksviði.
Niðurlönd skiptust í hið kalvínska Holland sem hafnaði kaþólsku ofríki Spánverja og hið kaþólska Flæmingjaland sem stjórnað var frá Antwerpen í nánum tengslum við Spánverja. Rubens var málari kaþólskra og í skjóli þeirra öðlaðist hann sinn einstæða sess og var eftirsóttur málari meðal aðalsins í Evrópu.
Meðal þekktustu verka Rubens eru: Krossinn reistur og Kristur tekinn af krossinum sem hann málaði árið 1611.