Freskan Sköpun dýranna, eftir endurreisnarlistamanninn Rafael Sanzio sýnir hvernig dýrin koma fram fullsköpuð úr leðjunni eftir boði Guðs. Listamaðurinn tekur með í myndina dýr, sem þá höfðu nýlega verið kynnt fyrir Evrópubúum fyrir tilstilli kaupmanna sem hafið höfðu verslun með vörur frá Asíu og Afríku, eins og bavíanann vinstra megin og fílinn og nashyrninginn hægra megin, og sömuleiðis goðsögulegar skepnur, einhyrningana sem sjá má við hægri hönd Guðs.
Myndina gerði hann á árunum 1518-19 fyrir Vatikanið í Róm.

Rafael fæddist í Urbino 6. apríl árið 1483. Eftirnafn hans er latnesk mynd af orðinu Santi sem merkir heilagur. Faðir hans Giovanni Santi var einnig málari og starfaði við hirðina í Urbino. Um tvítugt fluttist Rafael til Fórenz þar sem hann kynnstist bæði Leonardo da Vinci og Michelangelo. Þetta var á sama tíma og Leonardo var að vinna að Mónu Lísu og Michelangelo að Davíð. Hann dáði Leonardo mjög mikið og leit á hann sem fræðara sinn. Samskiptin við Michelangelo urðu stormasamari og einkenndust af samkeppni. Rafael lærði mikið af þeim báðum sérstaklega um framsetningu á líkamsbyggingu manna en hann bætti við sinni eigin tilfinningu sem er auðsæ í verkum hans.

Rafael dó á afmælisdegi sínum árið 1520. Á steinkistu hans er áletrun eftir Pietro Bembo þar sem stendur: „Hér liggur sá frægi Rafael sem Náttúran óttaðist að yrði ofjarl sinn á meðan hann lifði, og þegar hann dó, óttaðist að hún myndi sjálf lýða undir lok.“