Hinn guli Kristur eftir Paul Gauguin (f. 1848, d. 1903). Bændakonur krjúpa til bæna við róðukross úti við vegarkant í bretónskri sveit. Mennska Kristsmyndarinnar segir meira en mörg orð um upplifun kvennanna. Samt er liturinn gjörsamlega út úr kortinu — gulur líkami Krists og rauð tré undirstrika hvort um sig að sögusviðið er ekki af þessum heimi. Barnsleg teikning með sínum sterku, svörtu útlínum er af ráðnum hug látin minna á steint gler frá miðöldum. Þessi mynd sem hann málaði árið 1889 er gott dæmi um stíl Gauguins sem þótti djarfur þegar kom að litavali.