Kvikmyndin The Matrix, sem kom á markaðinn stuttu fyrir páska 1999, varð þegar í stað mjög vinsæl og eignaðist stóran hóp aðdáenda meðal ungra kvikmyndahúsagesta. Vann hún fjögur Óskarsverðlaun. Þessi óvænti árangur gerði framleiðendunum kleift að láta sína upprunalegu von rætast um að úr þessu yrði þriggja mynda röð og að senda tvær aðrar á markaðinn. Auk mikillar myndbanda- og DVD-sölu hefur kvikmyndin alið af sér net-umræðutorg, hún á sitt opinbera vefsetur og myndbandsleikur byggður á henni hefur náð upp í efstu sölutölur.
Beinar og óbeinar tilvísanir í Biblíuna koma mjög víða fyrir í myndinni. Ekki er hún langt komin þegar einni sögupersónunni, Thomas Anderson, sem starfar sem tölvuforritari á daginn, en „hakkari“ um nætur, þekktur í tölvuheimum sem Neó (viðsnúningur á orðinu One), er beinlínis líkt við Krist. Handritið gerir þetta á opinskáan hátt þegar Choi segir: „Hallelúja, þú ert frelsari minn, maður! Minn eigin Jesús Kristur!“ Þegar áhorfandinn hefur náð þessari tengingu, fer hann líka að koma auga á aðrar hliðstæður: Cypher tengist þannig við Júdas, fæðing Neós inn í „veruleikann“ tengist meyfæðingu Jesú og upprisan tengist upprisu Krists. Einnig er svolítil tenging við fórnarhugtakið bæði í Kristi sem kemur til að þjóna og gefa líf sitt og í því vali Neós (sem Oracle hafði hvatt hann til) að gefa líf sitt í kaupum fyrir líf fyrir Morpheus.
Vandamálið með hinar táknrænu líkingar milli Matrix og guðspjallanna er hins vegar þetta: hvar á að nema staðar? Í þessu tilfelli eru mörg mikilvæg atriði þar sem ekki er nein líking við guðspjöllin, t.d. vantar þar hugtökin synd og friðþæging. Þarna er líka hugmyndin um Neó sem hervæddan messías, sem tengir saman allan þann mikla vopnabúnað sem notaður er í myndinni og hugmyndina um endurreisn og frelsun. Framleiðendurnir hrifust af þeirri endurleysandi valdbeitingu sem þeir sáu í sumum ritum Gamla testamentisins og í Opinberunarbókinni. En í Matrix verða menn nánast tilfinningadofnir yfir öllu ofbeldinu.
Samt verður slíkur efnisþráður, sem rannsakar á opinn hátt veruleikann, eins konar miðlun á stórum efnisþætti í Jóhannesarguðspjalli: [Þið]„munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh 8.32) Margt ungt fólk samsinnir þeirri hugmynd að allir séu þrælar heimskerfis og þurfi á frelsun að halda. Fylgjendur Jesú sjá þessa lausn í formi lifandi trúar sem hefur sig upp yfir núverandi aðstæður.