Hinn afrísk-bandaríski listmálari Horace Pippin málaði í stíl „frumstæðu stefnunnar“ (Naïve Art). Þessa túlkun sína á sögunni af samversku konunni við brunninn (Jóh 4) málaði hann árið 1940.
Horace Pippin var fæddur árið 1888 í Pennsylvaníu og dó árið 1946. Hann ólst upp í New York þar sem hann gekk í skóla fyrir blökkumenn til 15 ára aldurs þegar hann þurfti að fara að vinna til að afla lífsviðurværis fyrir sig og móður sína sem var sjúklingur. Pippin var hermaður í Fyrri heimsstyrjöldinni og varð þekktur fyrir hetjudáðir. Hann særðist á hægra handlegg og gat ekki beitt honum eftir það (hann notaði vinstri handlegginn til að stýra særða handleggnum þegar hann málaði). Um reynslu sína af stríðinu sagði hann:
Mér var sama hvar ég var eða hvert ég fór. Ég bað Guð að hjálpa mér og hann gerði það. Á þann hátt komst ég í gegnum þetta hræðilega stríð. Því þetta stríð, eins og það lagði sig, var helvíti. Það var ekki staður fyrir nokkurn mann að vera á.
Pippin hóf ekki að mála fyrir alvöru fyrr en um 1930. Óréttlæti þrælahaldsins og aðskilnaðarstefnan í Bandaríkjunum eru sterk þemu í mörgum mynda hans. Trúarleg þemu eru einnig áberandi í verkum hans en auk þess málaði hann landslagsmálverk, portrettmyndir og myndir af daglegu lífi fólks.
Myndin er í vörslu Barnes Foundation í Philadelphia í BNA: https://collection.barnesfoundation.org/objects/5156/Christ-and-the-Woman-of-Samaria/