Þema og myndmál frásögunnar af þessari fyrstu óhlýðni mannsins (1Mós 3) má víða sjá stað í listum, bókmenntum og heimspeki Vesturlanda. Höggorminum er lýst í hebreska textanum sem útsmognu slóttugu dýri. Í gegnum aldirnar hefur hann oft verið tengdur persónugervingu hins illa eða Djöflinum eða Satan sem sýndur er í líki dreka eða forljóts púka með mannsandlit. Í frásögunni er samtal milli hins slæga höggorms og „konunnar í garðinum“:

Höggormurinn: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“
Konan: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“
Höggormurinn: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“
(1Mós 3.1-5)

Hvers konar ávöxtur óx á skilningstrénu? Flestir segja „epli“ en það segir hvergi í frásögunni að það hafi verið epli. Samkvæmt gyðinglegri hefð er fremur talað um döðlu eða hveitikvist. En það er orðinn hluti af vestrænni menningu að ávöxturinn hafi verið epli. Ástæðan fyrir þessu á líklega rætur í latneskri þýðingu Jerome á Biblíunni (Vulgata). Á latínu getur orðið malum bæði þýtt „epli“ og „illska“. Hugmyndin um hinn forboðna ávöxt hefur lengi verið sett í samband við óeðlilegar kynferðislanganir sem kannski má rekja til þess að í frásögunni er samband á milli þess að bragða á ávextinum og meðvitundar um nekt og skömm.

„Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.“ (1Mós 3:6-7)

„Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.““ (1Mós 3:10)

Myndlist: „Eva býður Adam hinn forboðna ávöxt.“ Myndrista eftir Giovanni Lanfranco frá 1638, eftir listaverki Raphael. Varðveitt í Fine Arts Museum í San Fransisco.