Skáldsögu Hermans Melville frá árinu 1851, Moby Dick, er skipað á bekk með mestu bókmenntaverkum heimsins. Við fyrstu sýn virðist þessi saga af síðustu sjóferð hvalveiðiskipsins Pequod frá Nýja-Englandi næsta einföld, en þegar betur er að gáð er hún full af táknum og rík af skírskotunum til Biblíunnar. Meginkjarni sögunnar er sú þráhyggja Ahabs skipstjóra að hefna sín á hinum þjóðsagnakennda hvíta hval, sem heitir Moby Dick. En Ahab telur að hann eigi mestan þátt í að leggja líf sitt í rúst.

Bent hefur verið á að hægt sé að lesa Moby Dick sem nokkurskonar öfugsnúna útgáfu á Jobsbók. Þessi tengsl eru sett fram snemma í skáldsögunni þegar við komumst að því að einn efnaðasti kostunaraðili ferðar skipsins er sjálfumglaður kristinn hræsnari sem heitir Bildad. Eins og sá „huggari“ Jobs sem Bildad er nefndur eftir, er þessi Bildad Melvilles fulltrúi fyrir hörkulega og dómharða útleggingu á Ritningunni. „Ef litið er á Bildad sem guðhræddan mann, og þó sérstaklega sem kvekara, verður vægast sagt að telja hann talsvert harðbrjósta.“ (MD, bls.93)

Melville fylgir hefðbundinni samlíkingu Levjatans Biblíunnar við hvalinn. Sögumaður Mobys Dick, ungi sjómaðurinn Ísmael, fer oft út fyrir efni sögunnar og segir ýmsar sögur af Levjatan og furðar sig á þeirri fífldirfsku sinni að vera nú að eltast við þennan hval:

„Að kafa eftir hvölum niður á hafsbotn, að hafa hendur sínar milli hinna óskiljanlegu máttarstoða heimsins, rifjanna, og alla leið niður á mjaðmagrindina – það er eitthvað voðalegt. Hver er ég, að ég dirfist að festa öngul í nös stórhvelis. Hræðilegar ögranir Jobs gætu slegið mig skelfingu.“ (MD, bls.159)

Umsnúningur Mobys Dick á texta Biblíunnar beinist að Ahab skipstjóra sem líta má á sem And-Job. Þar sem Job spyr og kveinar en lætur aldrei undan þeim þrýstingi eiginkonu sinnar, „að formæla Guði og fara að deyja“, hafnar Ahab í þvermóðsku sinni öðru valdi en trylltum vilja sínum. Þar sem Job viðurkennir loks vald Guðs og iðrast þess að hafa ekki sýnt auðmýkt, neitar Abah að lúta hvalnum, sem orðið hefur honum bæði guð og djöfull. Þegar Starbuck, fyrsti stýrimaður ásakar hann um guðlast, svarar Ahab honum fullum hálsi:

„Allir hlutir sýnilegir eru aðeins pappagrímur en á sérhverjum atburði í lifandi verknaði, í skýlausri dáð, eru einhver óþekkt öfl sem beita hugsanaþreki sínu og fela frumdrætti svipa sinna undir grímunni. Ef maður ætlar að slá verður hann að slá sundur grímuna. Hvernig getur fanginn sloppið nema hann brjótist gegnum múrinn? Fyrir mér er hvíti hvalurinn múr. Stundum held ég að ekkert sé til hinum megin. En samt veit ég það. Hann reynir mig, hann bugar mig, í honum sé ég ógurlegt afl sem knúið er áfram af illsku. Það er þetta órannsakanlega sem ég hata alveg sérstaklega og hvort heldur hvalurinn hvíti er verkfæri eða tilstofnandi skal ég láta hatur þetta á honum bitna. Nefndu ekki guðlast við mig því ég mundi slá til sólarinnar ef hún móðgaði mig.“ (MD, bls.192)

Moby Dick endar þar sem Jobsbók byrjar, með grimmdarlegri eyðingu og dauða. Síðustu orð skáldsögunnar tilheyra Ísmael sem er sá eini sem komst lífs af úr Pequod. Það eru orð sendiboða dómsins í Job 1.16: „Ég komst einn undan og get flutt þér tíðindin.“

Teikning eftir bandaríska listamanninn Isaac Walton Taber í bókarskreytingu Moby Dick.