Franz Joseph Haydn (1732—1809) samdi kórverkið Sköpunina á árunum 1796 til 1798. Óperutextinn er byggður á fyrstu Mósebók, Davíðssálmunum og endurgerð Johns Milton á sköpunarsögu Biblíunnar í sagnaljóði sínu Paradísarmissi. Nóturnar í óratóríu Haydns spanna víðara svið en það sem hann hafði áður samið. Haydn, sem ætíð var sanntrúaður maður, sagði síðar, er hann rifjaði þetta upp: „Ég var aldrei eins einlægur í trú minni og á þeim tíma þegar ég vann að Sköpuninni.“
Óratórían hefst á „Kynningu óreiðunnar“, þar sem dempuð hljóðfærin skapa tilfinningu fyrir síbreytilega, formlausa ringulreið. Þegar kemur að orðunum „Verði ljós“ (1Mós 1.3) brestur á afar sterkur C dúr og í kjölfar hans koma þrír kaflar, þar sem sköpunarsagan er sögð í smáatriðum. Sérhverjum kafla er skipt í þrennt; biblíulega frásögn, lýsingu og þakkargjörð. Þriðji hlutinn er tileinkaður Adam og Evu. Þeim er skipað í öndvegi sköpunarverksins og loks er synd þeirra gefin í skyn.
Þegar verkið var fyrst flutt opinberlega, varð uppselt. Það var einnig sýnt þegar Haydn kom síðast fram opinberlega á tónleikum árið 1808. Ludwig van Beethoven, sem var á meðal viðstaddra, fór til gamla tónskáldsins, kraup og kyssti hönd þess.
Mynd af Joseph Hayden eftir Thomas Hardy frá 1792