Í olíumálverkinu Turninn í Babel eftir Pieter Bruegel eldra fjallar listamaðurinn um gerð turnsins í Babel sem mannkynið hóf að byggja og átti að ná til himins. Af yfirlögðu ráði lætur hann útlit hans minna á Kólosseum í Róm, en kristnir menn litu þá byggingu sem tákn fyrir hroka og ofsóknir. Við fyrstu sýn virðist turninn stöðugur og standa á traustum stöplum, en við nánari skoðun sést að hæðirnar eru ekki fullkomlega lágréttar heldur er turninn byggður sem rísandi spírall. Bogagöngin standa aftur á móti hornrétt við hallandi undirlagið sem gerir að verkum að þau verða óstöðug og má sjá að sum þeirra eru við að hrynja. Ennfremur hefur grunnur turnsins og neðsta hæðin ekki verið fullfrágengin áður en fleiri hæðir voru byggðar ofná sem gerir bygginguna enn víðsjárverðari.

Bruegel notar þannig byggingafræðileg viðmið til að gefa í skyn hver örlög þessarar framkvæmdar mannanna muni verða.

Pieter Bruegel eldri flokkast til endurreisnarmálaranna Niðurlensku og er sérstaklega þekktur fyrir landslagsmálverk og myndir af bændum. Hann var bóndasonur og bjó í þorpinu Brueghel. Til aðgreiningar frá öðrum ættingjum sem margir urðu þekktir málarar var hann gjarnan uppnefndur „Bónda Bruegel“, en þó er yfirleitt verið að vísa til hans ef samhengið gefur ekki til kynna hvaða Bruegel verið er að fjalla um. Frá árinu 1559 hætti hann að skrifa nafn sitt með „h-i“ og merkti myndir sínar „Bruegel“.

Til eru heimildir um að hann hafi fæðst í bænum Breda í Niðurlöndum, en það er óljóst hvort um er að ræða hollenska bæinn Breda eða belgíska bæinn Bree, sem á latínu kallast Breda.

Í fyrri verkum hans eru augljós áhrif frá hollenska málarameistaranum Hieronymusi Bosch. Með tímanum tóku verk hans á sig einfaldari stíl en þann sem þá var hvað algengastur og átti uppruna í Ítalíu. Það var í náttúrunni sem hann fann mestan innblástur og er hann nefndur meistari landslagsmálverksins.


Í fyrstu tíu köflum 1. Mósebókar er fjallað um margar af grundvallar spurningum mannsins – uppruna manna, hvers vegna þeir deyja, hvers vegna þeir berjast og hvernig þeir komast af. Einni skýringu hefur verið bætt við: hvernig fólk sem allt á uppruna í sömu frumfjölskyldunni klofnaði frá henni í svo mörg aðskilin samfélög sem oft misskilja hvert annað.

Um Babelsturninn er aðeins fjallaði í níu versum í 11. kafla 1. Mósebókar. Þrátt fyrir það hefur sagan haft mikil menningar áhrif. Og enn er vitnað í þessa frásögu.

„Og þeir sögðu: „Komum nú, byggjum okkur borg og turn sem nái til himins. Þar með verðum við frægir en tvístrumst ekki um alla jörðina.““ (1Mós 11.4)

En Guð refsar fólkinu vegna hroka síns með því að rugla tungumáli þeirra. Fólkið hætti þá við tilraun sína að „ná til himins“ og dreifðist um alla jörðina.

Með frásögunni af Babelsturninum lýkur þeim hluta 1. Mósebókar sem fjallar um mannkynið sem heild. Þessi stutta frásögn er nokkurs konar öfugsnúningur við sköpunarfrásöguna í 1 kafla. Í stað þess að tungumálið sé notað til að sameina notar Guð tungumálið til að aðskilja og sundra. Guð gerði þannig óreiðu úr reglu. Þessi öfuga samsvörun sem er þekkt bókmenntaleg aðferð er notuð í mörgum biblíulegum frásögum. Eftir þessa frásögn í 1. Mósebók 11.1-9 verða áherslurnar aðrar og sviðið breytist. Frásagan skilur við hinar tvístruðu þjóðir og byrjar að segja sögu einnar fjölskyldu, einnar útvalinnar þjóðar.