Fræðimönnum sem rannsakað hafa bókmenntir fornaldar hefur lengi verið ljóst að í mörgum þeirra frásagna sem þar er að finna má sjá endurtekningar á algengum þemum. Því hefur raunar verið haldið fram að allar bókmenntir séu byggðar upp á endurteknum myndum eða minnum sem kallaðar eru arkitýpur. Arkitýpa er tákn, persónugerð eða söguþráður sem endurtekur sig í gegnum alla bókmenntasöguna. Dæmi um tákn er t.d. árstíðin vor sem látin er gefa endurfæðingu til kynna. Dæmi um persónugerð sem allir þekkja er hetjan. Og dæmi um algengan söguþráð er eftirför eða björgun.

Sumir þessara mikilvægu söguþráða sem flokkast sem arkitýpa koma fyrir í köflum 3 og 4 í 1. Mósebók:

1. Samkeppni milli bræðra
2. Glæpur og refsing
3. Morð
4. Leynilögreglusaga
5. Útlaginn
6. Sakfelda barnið
7. Saklaus fórnarlömb
8. Brottrekstur
9. Ferðalangurinn

Með samanburði á köflum 3 og 4 í 1. Mósebók má sjá marga þætti sem eru sameiginlegir – fæðing, vinna, áskorun frá Guði, að bregðast væntingum Guðs, eftirgrennslan Guðs um hvað hafi gerst, og í kjölfarið afleiðingarnar og brottrekstur. Þema kaflanna tveggja er það sama: Í 3. kafla hafna maðurinn og konan Guði. Í 4. kafla hafnar sonur þeirra Kain Guði. Á hverju stigi sögunnar er spenna um hvað muni gerast næst. Í hverri frásögn á sér stað val sem felur í sér siðferðilega ábyrgð eða synd og ræðst framvindan af því hvort er valið. Þá koma afleiðingarnar. Guð sýnir þolinmæði og fellir síðan dóm, og í framhaldinu veitir hann vernd og réttindi þeim sem í hlut eiga. Þessar sömu arkitýpur koma fyrir með margvíslegum hætti í allri Biblíunni.

Myndskreyting: Kain myrðir Abel frá 1576 eftir Johann Sadeler I í vörslu The Metropolitan Museum of Art.