Minnisvarðinn á myndinni stendur við Seneca Falls í New York þar sem fyrsta samkoma þeirra sem börðust fyrir kosningarétti kvenna fór fram í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir dæmi um elskuríkar, hugrakkar konur eins og Rut og Ester hefur ekki alltaf verið talað um Biblíuna sem vinsamlega konum – a.m.k. eins og hún hefur löngum verið túlkuð og notuð í daglegu lífi í nútímanum. Til Biblíu-yfirlýsinga um „stöðu“ konunnar í heiminum hefur oft verið gripið til að réttlæta að þeim sé haldið sem 2. flokks borgurum.
Þegar fyrsta bylgja frelsisbaráttunnar fyrir kosningarétti kvenna hófst í Bandaríkjunum um miðja 19. öld, þá kom til að mynda einhver harðasta andstaðan frá prestum sem reyndu að vísa til Biblíunnar þegar þeir tóku afstöðu gegn hreyfingunni. Hin hugmikla baráttukona Elizabeth Cady Stanton mætti þeim á þeirra eigin leikvelli og gaf jafnvel út sína eigin gerð af Biblíunni. Aðrar konur sem börðust fyrir kvenréttindum, bindindi og afnámi þrælahalds sóttu sér innblástur, ekki vonbrigði, í biblíuarfinn. Anna Howard Shaw, sem var bæði læknir og vígður prestur meþódista, byggði á arfleifð Biblíunnar þegar hún hvatti bandarískar konur til að hefja spámannlega baráttu fyrir þjóðfélagsbreytingum. Hún tók þannig til orða:
Hér er þá sú lexía sem Guð ætlar þér og mér. Hann opnar augum okkar innsýn í mikinn sannleika, í andrá leyfir hann okkur að virða hann fyrir okkur full undrunar; en síðan hvetur hann okkur til að halda áfram. Jakob, ættfaðir Hebrea, sá í sýn engla Guðs fara upp og niður stigann, en enginn þeirra stóð kyrr.
Þó að oft sé vitnað til biblíuhefðar til að réttlæta það að takmarka völd og áhrif kvenna, þá eru frásagnirnar af Rut og Ester sönnun fyrir því að ekki er svo auðvelt að draga upp einfaldaða heildarmynd af boðskap Biblíunnar. Rut var útlendingur sem kaus að taka Gyðingatrú vegna þess hve tengdamóðirin var henni dýrmæt og réð þannig úrslitum um að Davíð, sonarsonarsonur hennar, frægasti konungurinn í sögu Gyðinga, varð til. Hin fagra Ester braut gegn viðtekinni hefð með því að giftast heiðnum konungi, en hún notaði vitsmuni sína til að frelsa þjóð sína. Báðar teljast með þeim hugdjörfu konum sem sungið er lof í Orðskviðum Salómós (31.28–31):
„Börn hennar segja hana sæla,
maður hennar hrósar henni:
„Margar konur hafa sýnt dugnað
en þú tekur þeim öllum fram.“
Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta handa sinna
og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum.“