Í ljóðabókinni Höfuð konunnar (1995) eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur er að finna ljóðið Kross:

Ég hef verið hér áður
Landslagið auðþekkt:
úfin ströndin
egghvasst grjótið
aldan sem lemur…
Gegnum þokuna
grillir í dálitla hæð
Hugann grunar mannsöfnuð
Og einn að sligast
undir krossi

Ekkert efni Biblíunnar er eins algengt í bókmenntum tuttugustu aldar og píslarsagan. Þjáning mannsins var á dagskrá mestan hluta þeirrar aldar. Þar er hún skyld fyrri öldum, ekki hvað síst sextándu og sautjándu öld, öld píslarsálma og passíutónlistar – enda oft nefnd öld þjáningarinnar. Í myndlist og bókmenntum tuttugustu aldar eru vísanir til píslarsögu Jesú á hverju strái. Með því er horft til hins eindregna samnefnara þjáningarinnar, þar sem hinn saklausi þjáist, gengur leið trúfestinnar á enda og þolir niðurlægingu heimsins. Þar sem grundvallarþættir mennsku og mannúðar eru kallaðir fram í dagsljósið. Í íslenskum bókmenntum er þessu efni hvergi gerð betri skil en í Heimsljósi (1937–40) Halldórs Laxness (1902–1998) þar sem jesúgervingurinn Ólafur Kárason lifir sína píslarsögu í íslensku samfélagi. Þeirri sögu lýkur á páskadag með sterkri vísun til upprisunnar.

Í ljóðum Snorra Hjartarsonar (1906–1986) er vísað til píslarsögunnar og reyndar einnig annarra texta úr Biblíunni.

Ferðamaður

Þreyttur af göngu
leitaði ég mér hvíldar
í hljóðum garði við veginn

Það var stjörnubjart og hlýtt
og ég lagðist í grasið
ekki langt frá þrem sofandi mönnum

Senn heyrði ég rödd gegnum svefninn
fjarlæga nálæga rödd
svo heita af kvöl
að ég hrökk upp og svipaðist um

Hann lá gegnt mér í rjóðrinu
á grúfu með breiddan faðm
reis upp á hnén
og bað og bað

Öll þessi angist og kröm
hvers átti hann að bíða
ég fór hjá mér ég hélzt ekki við

Og þegar ég sá blys nálgast garðinn
vopnaða menn á ferð
hljóp ég við fót
úr þessum hryllilega náttstað

Forðaði mér
út á veginn til Jeríkó.

Í ljóðinu verður ferðamaðurinn vitni að sálarstríði Jesú í grasgarðinum Getsemane en hræðist og forðar sér á brott „út á veginn til Jeríkó“. Í ljóðinu Ég heyrði þau nálgast, sem fjallar um Maríu og Jósef á flótta með barnið til Egyptalands og ort er eftir innrásina í Ungverjaland árið 1956, svífur óneitanlega sami andi yfir vötnunum: tregablandin tilfinning skáldsins fyrir því hversu vonin á erfitt uppdráttar.

Annað ljóð og jafnframt eitt umræddasta ljóð Snorra, Í garðinum, fjallar einnig um Getsemane. Snorri grípur þar til mynda úr Opinberunarbók Jóhannesar og einnig úr Völuspá. Í fyrsta vísuorðinu blandar hann þessu hvoru tveggja saman: „lævi“ úr Völuspá en „remmu“ úr Opinberunarbókinni.

Í ljóðinu Ef til vill er dregin upp mynd af rjúpuunga, sem Snorri fann fastan á gaddavír norður í Þingeyjarsýslu. Honum tókst að losa hann af vírnum. Ljóðið fjallar ekki aðeins um ungann og lausn hans heldur um krossfestingu Jesú og upprisu hans. Þessir tveir atburðir tvinnast saman í ljóðinu. Þar með verður atburðurinn fyrir norðan þýðingarmeiri og innihaldsríkari en ella.

Og sömuleiðis krossfestingin. Ljóðið fjallar ekki aðeins um þjáningu hins saklausa heldur einnig um vonina: „Og ef til vill fagnar hann/ upprisunótt …“.

Guðfræðilega skoðað virðist náðin oft verða Snorra tilefni ljóðs. Einnig mætti kalla þá lífsskynjun, sem hér er vikið að, hugboð um boðskap upprisunnar án þess að sá boðskapur sé beinlínis nefndur á nafn nema einna helst í ljóðinu Ef til vill. Hér er átt við óvænta lausn, sem opnast skáldinu í svipleiftri: „… óvænt líkn/ angráðu hjarta“ eða í ljóðinu Fugl kom: „… Höndin er full/ með frið og þrótt“. Vonin kemur óvænt og án alls tilverknaðar skáldsins.

Hér skal aðeins minnt á þríleik Ólafs Gunnarssonar frá árunum 1992–99, þar sem píslarsagan svífur yfir vötnunum. Fyrsta bókin var Tröllakirkja (1992), fjórum árum síðar kom Blóðakur (1996) og loks kom Vetrarferðin þremur árum síðar (1999), persónur eru ekki þær sömu í öllum verkunum. Á kápusíðu er fyrsta bókin kynnt með þessum orðum: „Tröllakirkja er efnismikil og dramatísk skáldsaga þar sem spurt er um sektina og fyrirgefninguna, manninn og Guð.“

Blóðakur hefst á tæpri blaðsíðutilvitnun í frásögn Mattheusarguðspjalls (27.3-11) á afdrifum silfurpeninganna þrjátíu sem Júdas fékk fyrir að svíkja Jesúm. Hann fleygði þeim inn í musterið. „En æðstu prestarnir tóku silfurpeningana og sögðu: Það er eigi leyfilegt að leggja þá í guðskistuna, þar sem þeir eru blóðs verð. En er þeir höfðu haldið ráðstefnu, keyptu þeir fyrir þá leirkerasmiðsakurinn til grafreits fyrir útlendinga. Fyrir því er akur þessi kallaður Blóðakur allt til þessa dags.“

Leikritið Dagur vonar (1987) eftir Birgi Sigurðsson er íslenskt fjölskyldudrama og snýst um þjáningu mannsins. Lára býr með þrem stálpuðum börnum sínum eftir fráfall manns síns, þeim Reyni, Herði og Öldu sem er 26 ára og geðveik. Elskhugi hennar, Gunnar, er 38 ára atvinnulaus alkóhólisti, Lára er tíu árum eldri. Þjáningin í leikritinu birtist í fjölskyldumynd þar sem linnulaus átök eru daglegt brauð innan veggja heimilisins. Óhamingja og þjáning svífur yfir vötnunum frá morgni til kvölds. Alda lifir í framandi heimi sjúkdóms síns, í leikritinu er það veröld hins góða, fagra og sanna og myndar algjöra andstæðu við raunveruleika líðandi stundar.

Þegar Gunnar nauðgar Öldu er vendipunktur í verkinu. Þau tímamót voru undirstrikuð í uppfærslu verksins 2007 með því að láta hana falla á leikmyndina fremst á leiksviðinu (voldug möskvuð járngrind) svo að engu var líkara en um krossfestingu væri að ræða.

Í örvæntingarópi hins krossfesta endurspeglast guðsmynd Nýja testamentisins, það er ekki aðeins Jesús sem hrópar í örvæntingu þjáningarinnar („Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig“) heldur einnig Guð. Nauðgun Öldu mætti setja inn í þetta samhengi. Í lok verksins upplifir Alda eins konar upprisu þegar hún læknast af sjúkdómi sínum og kemur að fullu til raunveruleikans á ný — sem þá er orðinn breyttur. Dagur vonarinnar er runninn upp.

Verkið er ekki aðeins raunsæisleg frásögn af þjáðri Reykjavíkurfjölskyldu á sjötta áratugnum þar sem hvaðeina virðist stefna í óefni, heldur sver verkið sig einnig í ætt við fjölmargar píslarsögur nútímans þar sem tenging skapast við þá píslarsögu sem þorri leikhússgesta þekkir. Með þeim hætti fær þjáningin ekki aðeins samfélagslega skírskotun heldur öðlast hún trúarheimspekilega dýpt.

Dægurlagatextar eru ekki undanskildir þegar fjallað er um píslarsöguna. Nægir þar að nefna Megas og fjölmargar píslarsögur í hans ljóðum, bæði hans eigin píslarsögu og annarra. Iðulega má þá greina vísun til píslarsögu Jesú. Í ljóðinu „Marta, Marta (Hví hefur þú yfirgefið mig?)“ er krossfesting Jesú endursögð með afar framandlegum hætti, ljóðið hefst svona:

Marta Marta
kæra Marta
hví hefur þú yfirgefið mig?
því er ólokið og ófullkomnað
er það Marta
á mig hlýddu:
óuppgerða á ég skuld við þig
en ég er hér fastur
ætlarðu ekki að koma?

GK