John Keats (1795-1821) var fullkomin ímynd hins rómantíska skálds á Englandi. Hann var með andlegt næmi á háu stigi, tilfinningaríkur vitmaður, en átti við bága heilsu að stríða, berkla, sem á þeim tíma voru ólæknandi sjúkdómur. Keats skynjaði stöðugt innri tengingu við þann þunglyndis-undirstraum sem honum virtist að flæddi um náttúru þessa heims. Eins og þessari hugmynd er beitt í bókmenntunum, sem tilfinningu fyrir því að í allri náttúrunni megi finna samlíðan með hjarta mannsins, þá er þetta kallað samlíðunar-villan (the pathetic fallacy) og var oft beitt sem listbragði í ljóðum Keats. Í einu þeirra, Óði til næturgalans (1819), dregur hann upp lýsingu á náttsöng þess fugls sem í senn felur í sér óbærilegan sætleika og hryggð, þrá og missi. Í því erindi ljóðsins sem hér fer á eftir yfirfærir Keats sinn eigin þunglyndishug yfir á Rut, sögupersónu okkar. Þó að Biblían minnist hvergi á að Rut hafi verið haldin heimþrá, þá dvelur hún með manni þessi sláandi hugmynd Keats þar sem hann dregur saman í einn þráð alla mannlega reynslu af því að vera „ókunnugur maður í framandi landi,“ jafnvel þótt það sé hans eigið land.

Til lífs þú fæddist, ódauðlegur ert!
og einskis hungur slær þig, fugl, í hel;
þín rödd, sem berst mér rökkurdimma nótt,
í Róm var heyrð að fornu af kóng sem þræl:
má vera sami söngur, leið sem fann
að sorgarhjarta Rutar, nær hún stóð
á akrinum í tárum, hrærð af heimþrá.
Lausl. þýðing: JVJ