Jólasögur úr samtímanum (1995) eftir Guðberg Bergsson eru spaugilegar sögur með þungum undirtóni. Hér er um að ræða sex jólasögur í góðlátlegum en stundum kaldhæðnislegum stíl. Heiti sagnanna segja sína sögu: Jesús kennir fólkinu að halda stiganum hreinum, Jesús kennir hámenntuðu fólki að slá lóðina sína, Jesús lætur ungan mann hætta að stela af ömmu sinni, Jesús kennir kommúnista að hætta að halda fram hjá konunni sinni, Jesús kemur á fjallajeppa og frelsar hjón úr nauðum og Telpan Jesú bjargar karlmanni frá drukknun á Kanaríeyjum.
Það kæmi varla á óvart að jólasögurnar hefðu hneykslað einhverja. Ástæðan er sú að hér er vikið frá hefðbundinni framsetningu á jólaguðspjallinu þar sem heilög alvara hvílir yfir. Og hér er enn fremur vikið frá klassískum jólasögum sem setja sinn svip á jól og aðventu.
Hér vantar ekki sýndarhelgi — enda er tilgangurinn augljós: að sýna jólabarnið í kaldhæðnislegu ljósi. Sumir kunna að taka dýpra í árinni: hér er hæðst að frelsaranum sjálfum. Eða fellur kaldhæðnislegt ljósið öllu heldur á samfélagið? Er það ekki sýndarhelgi þess sem sagan á að endurspegla? Einhverjir kynnu að líta svo á að sögurnar væru tímabærar ádrepur: hvers vegna ekki að brjóta upp frásagnarhefðina sem tengist jólunum og hrista ærlega upp í öllu sem þeim tengist, ekki síst jólaundirbúningi sem virðist stundum órafjarri hátíðinni sjálfri — og þá ekki síst einmitt kjarna málsins: jólabarninu.
Í fyrstu sögunni segir frá jólaundirbúningi í íslensku fjórbýlishúsi; allt er í fullum gangi. Koma jólabarnsins kostar þrotlausan undirbúning, svita og tár. Þegar jólin eru hringd inn í útvarpinu kl. 6 á aðfangadagskvöld hringir jólabarnið dyrasímanum og vantrúarviðbrögðum íbúanna er lýst. Þau krystallast í spurningu magistersins þegar hann spyr: „Til hvers kemur þú?“ (s. 17). Svar Jesúbarnsins kemur á óvart: „Til að skúra stigann…“ . Og síðan er það horfið. En íbúarnir lærðu að skúra stigann. „Upp frá því hefur dæmigerða skeljasandspússaða fjölbýlishúsið angað af kristilegum ilmi…“
Spurning magistersins minnir á söguna af Rannsóknardómaranum mikla eftir Dostojevskij (felld inn í Karamazovbræðurna) þar sem Jesús guðspjallanna er látinn snúa aftur á tímum spænska rannsóknardómsins alræmda á miðöldum. Fólkið fagnar og hópast að honum en rannsóknardómarinn mikli verður brátt ósáttur við þennan Jesúm sem veldur óróa meðal fólksins. Í yfirheyrslunum yfir honum spyr rannsóknardómarinn spurningar sem oft hefur verið vitnað til: „Hvers vegna kemurðu til þess að trufla okkur?“ Og dæmir hann til dauða en breytir dómnum í útlegðardóm. Með þessari sögu kemur höfundurinn beinskeyttri þjóðfélags-og kirkjugagnrýni til skila þar sem Jesús sjálfur er æðsti mælikvarði.
Erindi jólabarnsins er óneitanlega tvíræðnara en með komu spámannsins Jesú inn á vettvang spænska rannsóknarréttarins í sögu Dostojevskýs en sagan skilur eftir spurninguna: Hvert er erindi jólabarnsins?
GK