Dante Alighieri (1265-1321) lýsir í einu mesta sögukvæði vestrænna bókmennta, Hinum guðdómlega gleðileik (La Divina Commedia), hvernig hann sér fyrir sér lífið eftir dauðann. Í skáldlegri framsetningu lýsir Dante þeim afleiðingum sem sá glæpur sem hann áleit þann versta hugsanlega: morð á fjölskyldumeðlim mundi hafa fyrir gerandann. Þeir sem höfðu orðið skyldmenni sínu að bana voru sendir niður í níunda hring hins „lægra vítis“. Þennan stað kallaði Dante „Kainía“, og dregur nafnið af sögunni af Kain og Abel í 4 kafla 1. Mósebókar. Dante lýsir því hvernig þeim sem slíkan glæp hafa framið er komið fyrir ofaní ís upp að hálsi með höfuð sín drjúpandi fram.
Í Hinum guðdómlega gleðileik lýsir Dante ferð sinni um Helvíti (Inferno), Hreinsunareldinn (Purgatorio) og Paradís (Paradiso) fyrst undir leiðsögn rómverska skáldsins Virgils og síðan Betrice, konunnar sem hann elskaði.
Dante skrifaði verk sitt á nýju tungumáli sem hann kallaði „ítölsku“ og byggði það aðallega á mállýsku sem töluð var í Toskana héraði ásamt þáttum úr latínu og öðrum mállýskum. Með þessu kvæði sínu festi hann ítölskuna í sessi sem lifandi og tjáningarríkt tungumál.
Lesendur hafa velt því fyrir sér hvers vegna verk um jafn alvarlegt efni skuli vera kallað „gleðileikur“ eða „kómedía“. Skýringin á því er sú að á tímum Dante voru öll alvarleg og fræðileg verk rituð á latínu og allt sem skrifað var á önnur tungumál álitið gert í léttvægari tilgangi. Ennfremur vísaði orðið „kómedía“, samkvæmt klassískum skilningi, til trúar á skipulagðan heim þar sem atburðir stefndu ekki aðeins að „hamingjuríkum“ málalokum heldur, fyrir tilstilli forsjónarinnar, að hinu æðsta góða. Samkvæmt þessari merkingu fellur framvinda kvæðisins, þar sem pílagrímsferð Dantes liggur frá siðferðilegri ringulreið Helvítis og fram fyrir auglit Guðs í Paradís, vel að hugtakinu „kómedía“.
Vangamynd af Dante eftir ítalska málarann Sandro Botticelli (1444-1510)