Fyrsta Jóhannesarbréf er eignað Jóhannesi postula og guðspjallamanni enda minnir það sterklega á Jóhannesarguðspjall. Bréfið er ekki eiginlegt bréf heldur sambland af bréfi, ritgerð og prédikun. Höfundur varar við villukennendum og falsspámönnum sem komnir eru í söfnuðinn og hafna því að Jesús hafi verið raunverulegur maður (4.1−4.3). Gegn slíkum kenningum ítrekar höfundur að Guð hafi komið í heiminn sem maðurinn Jesús Kristur. Hann ræðir um hið nýja samfélag og hvaða afleiðingu þekkingin á Kristi, syni Guðs, hefur í daglegri breytni manna, að þeir eigi að sýna hver öðrum kærleika, vera Guðs börn. „Guð er kærleikur,“ segir í bréfinu (4.8 og 4.16) og trúin á hann á að móta allt líf þeirra sem honum fylgja (4.10−4.21). Í bréfinu eru notaðar myndir sem öllum eru tamar og andstæður eins og ljós − myrkur, líf − dauði, sannleikur − lygi, elska − hatur.