Margur er á höttunum eftir því, sem “ósvikið” er í mannlífinu. Lestu Bréf Páls til Kólossumanna, en af því skilst að það er Kristur sem færir “lífið sanna, sálum manna.”

Hver eru séreinkenni Kólossubréfsins?

Í bréfum sínum ritar Páll postuli um þau miklu vatnaskil sem verða þann dag þegar Kristur kemur aftur, sigrar hin illu öfl og tekur sér allt vald á himni og jörðu. En í Kólossubréfinu er því lýst, sem Jesús Kristur hefur þegar afrekað. Þegar hann gaf upp andann á krossinum, voru allar tignir og völd, er stóðu í gegn Guði, að velli lögð (2.15,20). Í Kólossubréfinu er einnig að finna dýrlegan sálm, er lýsir því hver Kristur er (1.15-20). Hann er sonur Guðs (1.15) og “höfuð líkamans, kirkjunnar” (1.18). Höfundur bætir því við, að Kristur sé lykillinn að “leyndardómi Guðs” (2.2).

Hvert var tilefni Kólossubréfsins?

Höfundi Kólossubréfsins var mikið í mun að hvetja Kólossumenn til þess að vera stöðugir í Kristi og varðveita trú sína á hann (2.6), en láta ekki blekkjast af falskenningum eða ánetjast einhverjum af þeim trúargrillum eða annarlegu tilbeiðsluháttum sem úði og grúði af í Litlu-Asíu þessa tíma (2.8, 16-23). Hann lagði fast að þeim að breyta “eins og Guði líkar” (1.10). Nú skyldu þeir því leggja af gamla lesti (3.1-9), en íklæðast í staðinn, eins og Guðs útvalin börn, kristilegum dyggðum, samúð, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi (3.12-14). Þá gaf hann lesendum sínum jafnframt heilræði um það, hversu fjölskyldufólk og skyldmenni ættu að koma fram hvert við annað.

Nánar um bréfið

Kólossa var lítil borg uppi í landi Litlu-Asíu sunnanverðrar, í austurátt frá aðal hafnarborginni Efesus, ekki langt frá Laódíkeu og Híerapólis (sjá kortið hér á blaðsíðunni). Allar eru þessar borgir fjórar nefndar í Kólossubréfinu. Höfundur bréfsins hefur að vísu sjálfur aldrei komið til Kólossu, en hann gleðst yfir fréttum af því, hve kristnir menn eru þar sterkir í trúnni (1.3-7; 2.6,7). Það var Epafras, einn samverkamanna Páls, sem boðað hafði Kólossumönnum fagnaðarerindið um Jesú Krist, þegar hann átti heima í Kólossu (1.7; 4.12,13).

Sumir fræðimenn hallast að því, að Páll postuli sé ekki höfundur Kólossubréfsins, þótt kennt sé við hann. Nær sé að eigna bréfið einhverjum lærisveini hans, sem hafi skrifað það eftir að Páll var allur á miðjum sjöunda áratugnum eftir Krists burð. Það var raunar alsiða til forna, að lærisveinn heiðraði meistara sinn með því að skrifa í nafni hans.

Efnisskipan bréfsins

Upphaf Kólossubréfsins og niðurlag þess eru mjög í anda Páls postula. Höfundur heilsar lesendum sínum næstum alveg eins og gert er í Efesusbréfinu (Kól 1.1,2; Ef 1.1,2). Að öðru leyti er efnisyfirlitið svofellt:

  • Heilsan, þakkir, bænir og sálmur um Krist (1.1-23)
  • Páll prédikar Jesú Krist (1.24-2.23)
  • Lífið nýja í Kristi (3.1-4.6)
  • Þakkir, heilræði og kveðjur (4.7-18).