Í musterinu í Jerúsalem færði æðsti prestur Gyðinga fórnir til þess að Guð afmáði misgjörðir fólksins. En hvernig gátu kristnir menn hlotið fyrirgefningu og orðið Guði velþóknanlegir? Hebreabréfið svarar þessum spurningum.

Hver eru sérkenni Hebreabréfsins?

Hebreabréfið er einstakt trúarrit, án hliðstæðu. Í því er kristin trú skilgreind og útskýrð bæði í ljósi helgirita Gyðinga og hugmynda grískrar menningar og heimspeki. Grískan á ritinu er í senn fögur og æði margslungin samanborið við flest önnur rit Nýja testamentis. Staðhæfingum sínum til stuðnings beitir höfundur mælskulist og röksemdafærslum sem algengar voru og vel þekktar í samtíða hans.

Hebreabréfið er að sönnu nefnt “bréf”, enda lýkur því með hefðbundnum kveðjum og fyrirbæn (13.22-25). En það er í rauninni stórfengleg prédikun, vandlega sett saman til þess að svara grundvallarspurningum um kristna trú og til þess að sannfæra lesendur um óviðjafnanlegt mikilvægi Jesú Krists.

Hvert var tilefni bréfsins?

Margir trúmenn á fyrstu öldinni, Gyðingar jafnt sem Grikkir, voru nokkuð efins um kristindóminn. Hebreabréfið lýsir því, að kristindómurinn á rætur í gyðingdómi, en gerir einnig grein fyrir mismuninum á þessum trúarbrögðum tveimur. Það, sem helst skilur að kristnina og gyðingdóminn, er sjálfur Jesús Kristur. Hann er æðsti presturinn, sem bar sjálfan sig fram sem syndafórn í eitt skipti fyrir öll (9.23-10.18). Hann dó og var grafinn og reis upp aftur. Með því greiddi hann öllum mönnum veg inn í sjálfan himininn (4.14-5.10; 7.1-8.13).

Höfundurinn segir Jesú meiri en nokkurn af englum Guðs (1.5-14), meiri en nokkurn spámann, jafnvel meiri en Móse og Jósúa (2.1-4.14). Fyrirgefningu syndanna og lífið nýja sem Jesús færir öðlast mennirnir aðeins fyrir trú. Og trúin veitir lærisveinum Jesús fullvissu um það sem þeir vona og sannfæringu um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá (11.1). Höfundurinn lofar þá, sem trúðu til forna (11.2-40), þann “fjölda votta” sem uimkringja kristna menn þegar þeir þreyta þolgóðir skeiðið sem framundan er (12.1). En umfram allt mega þeir ekki láta hugfallast, heldur beina sjónum sínum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar (12.2,3).

Nánar um Hebreabréfið

Ekki er unnt að segja til um það með vissu, hver skrifaði Hebreabréfið eða hvenær. Stíll bréfsins og málfar eru ólík öðrum bréfum Páls postula í Nýja testamenti. Djúpsæja guðfræðina, sem fjallar um Krist og hjálpræðisverk hans, hlýtur að hafa tekið drjúgan tíma að ígrunda. Ritið hefur því trúlega orðið til eftir árið 60 e. Kr., en áreiðanlega fyrir árið 95, því að þá vitnar Klemens af Róm í það í sendibréfi.

Það er líka óvíst, hverjir fyrstu lesendurnir voru. Í 13.24 er viðtakendum borin heilsun “mannanna frá Ítalíu” og kunna þeir að hafa verið að biðja fyrir kveðju heim til sín. Greinilegt er, að sumir þeir sem ritið er ætlað, hafa mátt þola miklar þrengingar, verið smánaðir opinberlega og sviptir eignum sínum (10.32-34). Þá hafa einhverjir lærisveinanna verið hættir að sækja safnaðarsamkomur, af því að endurkoma Krists dróst á langinn (10.25). Hvort tveggja þetta bendir til þess að ritverkið sé samið handa kristnu safnaðarfólki á ofanverðri fyrstu öldinni.

Efnisskipan Hebreabréfsins

Hebreabréfið er vandlega samin ræða eða prédikun. Efnið er sett fram af mikilli nákvæmni. Höfundurinn gerir ýmist að fræða eða gefa ráð. Fimm meginstoðir bera uppi röksemdafærsluna. Hverri þeirra er fylgt eftir með forskriftum um líferni safnaðar Guðs.

  • Guð fól Jesú að hreinsa og endurnýja ásjónu jarðar (1.1-14)
    • “Gefum gaum að orðinu, sem við höfum heyrt. Það er hjálpræði” (2.1-4).
  • Hjálpræði Jesú Guð börnum til handa tekur fram hjálpræði Móse (2.5-3.6)
    • “Haldið fast við trúna og gangið inn til hvíldar hans” (3.7-4.13)
  • Jesús er æðsti presturinn mikli (4.14-5.10)
    •  “Hverfið frá breytni sem leiðir til dauða” (5.11-6.12)
  •  Með fórn Jesú var nýr sáttmáli gerður (6.13-10.18)
    • “Búið ykkur undir endurkomu Drottins” (10.19-39)
  • Sá sem vill nálgast Guð verður að trúa (11.1-40)
    • “Þreytum þolgóð skeið trúarinnar” (12.1-13.25)

* Englar: “Engill” er á grísku angelos, sem þýðir “sendiboði.” Í Biblíunni reka englar erindi Guðs og framkvæma vilja hans. Höfundur Hebreabréfsins segir, að sonur Guðs (Kristur) hafi líka verið sendiboði. En af því að Guð og Jesús eru faðir og sonur, þá er Jesús miklu meiri en englarnir, enda tilbiðja hann allir englar Guðs.