Trúin á Jesú Krist gerir það að verkum, að við vingumst ekki aðeins við Guð heldur og börn hans, hvar sem þau eiga heima. Nú fræðumst við um það, hvernig Páll sáði niður frjókornum trúarinnar í hjörtu Korintumanna og hversu vinátta hans og þeirra skaut við það rótum og dafnaði.

Hver eru einkenni Fyrra Korintubréfs? 

Í Fyrra Korintubréfi kemur glögglega fram, hver úrlausnarefni söfnuður frumkirkjunnar í Korintu átti við að eiga. Viðhorf Páls til ýmissa álitaefna koma því skýrt í ljós. Kunnir kaflar í bréfinu fjalla um náðargjafir heilags anda og í því er líka að finna hinn fræga óð Páls postula til kærleikans (12-14). 15. kapítulinn hefur meðal annars inni að halda hin huggunarríku orð Páls um sigur Guðs yfir dauðanum. Þar ræðir og um lífið nýja og hinn “andlega” líkama, sem þeim hlotnast sem á Krist Jesú trúa.

Hvert var tilefni Fyrra Korintubréfs?

Páll hafði komið til Korintu, dvalið þar og boðað fagnaðarerindið um Jesú Krist (sjá Post 18.1-17). Höfðu því tekist góðir kunnleikar með honum og lærisveinunum í Korintu. Hann skrifaði þessum vinum sínum til, af því að hann hafði haft spurnir af ágreiningi á meðal þeirra og deilum. Einkum hafði Páll áhyggjur af því að kristnir menn í Korintu skyldu skiptast í flokka (1.10-4.21) og koma fram hver við annan eins og raun bar vitni (5.1-6.20). Í bréfi sínu svarar hann og líka spurningum þeirra varðandi hjónabandið (7.1-40) og neyslu fórnarkjöts (8.1-13). Af bréfi Páls má skilja, að þeir höfðu áður sent honum fyrirspurnir um þessi efni skriflega (7.1). Þá vildi Páll líka láta Korintumenn vita, að hann hefði í hyggju að heimsækja þá aftur og staldra um hríð (16.5).

Hvernig var ástatt í Korintuborg, þegar bréfið var skrifað?

Þótt bréfið sé nefnt Fyrra Korintubréf, er það ekki fyrsta bréfið, sem Páll skrifaði söfnuðinum þar. Það vitum við, af því að hann segist í þessu bréfi hafa ritað sömu móttakendum annað bréf áður (5.9). Sjá og innganginn að Síðara Korintubréfi.

Korintuborg stóð um 80 km. vestur af Aþenu, á mjóu eiði milli Eyjahafs og Adríahafs, en það tengir meginland Grikklands við Pelopsskaga. Þar var skipalægi bæði til austurs og vesturs. Um borgina léku því margir menningarstraumar og var fólk þar flest mjög veraldlega sinnað. Mikil helgi hafði lengi verið á Afrodite, gyðju fegurðar og ásta. Páll ræðir í bréfi sínu um ýmis þau vandræði, sem hinir kristnu í Korintu þurftu að kljást við vegna ástandsins sem þar ríkti í siðferðismálum.

Efnisskipan bréfsins

Fyrra Korintubréf er að líkindum eitt, óslitið sendibréf frá upphafi til enda. Þó er talið hugsanlegt að aukið hafi verið í það öðrum bréfum Páls til Korintumanna. Hvað sem því líður hefst bréfið með heilsun og lýkur á kveðjum svo sem títt var um tilskrif í þennan tíma. Mestallt efni bréfsins lýtur að vanda- og álitamálum, sem uppi voru í söfnuðinum í Korintu. Undir lok bréfsins ræðir Páll fyrirætlanir sjálfs sín. Bréfið skiptist að efni til svona:

  • Heilsun og inngangur (1.1-9)
  • Verið samhuga vegna Krists (1.10-2.16)
  • Reiðið ykkur á kenningu postulanna (3.1-4.21)
  • Ósiðlegur lifnaður – Hjónabandið (5.1-7.40)
  • Heiðrið Guð og ekki skurðgoð (8.1-11.1)
  • Guðsþjónustan og náðargjafirnar (11.2-14.40)
  • Upprisan – Kristur hefur sigrað dauðann (15.1-58).
  • Fyrirætlanir Páls og kveðjur (16.1-24).