Hvers vegna skiptir miklu að tilheyra liðsheild, vinahópi eða fjölskyldu? Við lestur Bréfs Páls til Efesusmanna verður okkur ljóst, að hver sá sem trúir á Jesú Krist er limur á “sama líkama”, heimamaður Guðs.

Hver eru sérkenni Efesusbréfsins?

Í Efesusbréfinu eru teknar saman margar helstu kenningar Páls postula. Höfundur áréttar, að Guð hafi vakið Krist frá dauðum og látið hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti (1.20-21). Þá skrifar hann, að Kristur hafi gert “heiðingja og Ísraelsmenn að einum,” rifið niður vegginn sem skildi þá að og gert að engu fjandskapinn á milli þeirra (2.14). Nú hafa þeir, sem trúa á Jesú, af heilögum anda verið kallaðir til þess að vera limir á einum og sama líkama, sem er kirkjan. “Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,” ritar Páll (4.5). Frá Kristi er sú gjöf komin, að “sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar” (4.11). Síðari hluti bréfsins inniheldur fjöld heilræða til handa hjónum, foreldrum og börnum, húsbændum, þrælum og öllum þeim, sem lifa vilja eins og Guðs börn. Þar er og lýst “alvæpni Guðs”, sem hann gefur börnum sínum til þess að verjast vélabrögðum djöfulsins og heimsdrottnum myrkursins (6.10-17).

Tilefni Efesusbréfsins

Í mörgum bréfa Páls postula er alveg augljós ástæðan fyrir því, að hann ritaði þau. En þetta á ekki við um Efesusbréfið. Í því er ekki að finna neinar spurningar eða vandkvæði safnaðarins í Efesus. Það er því næsta erfitt að kveða upp úr um tilefni Efesusbréfsins. Þó má vera að ákveðna vísbendingu sé að finna í Post 19-20. Þar segir frá því, hversu Páli tókst vel upp í fyrstunni, þegar hann flutti Efesusmönnum fagnaðarerindið um Jesú. En svo tók að síga á ógæfuhliðina, er honum lenti saman við þá sem dýrkuðu Artemis, verndargyðju Efesusmanna. Við það komst öll borgin í uppnám. Þótt borgarritarinn vildi ekki fara gegn Páli eða refsa honum taldi Páll þó ráðlegast að hafa sig á burt. Síðarboðaði hann til sín öldunga safnaðarins í Efesus, hvatti þá og uppörvaði og blés þeim í brjóst kjark til þess að takast á við andbyr og erfiðleika. Það sem helst hrjáði kristna menn í Efesus var flokkadrættir innan safnaðarins. Sumir safnaðarmenn vildu kljúfa sig frá og aðhylltust ekki kenningar Páls. Þess vegna leggur Páll svo mikla áherslu á einingu í kirkjunni.

Hvernig var ástatt í Efesus, þegar bréfið var skrifað?

Í mörgum handritum Efesusbréfsins segir í upphafi, að Páll heilsi “hinum heilögu í Efesus.” Þetta vantar í önnur handrit, þar á meðal þau elstu; þau nefna ekki að bréfið sé ritað Efesusmönnum. Því hefur fræðmönnum komið í hug, að bréfið kunni að hafa verið umburðarbréf, ætlað mörgum söfnuðum í Litlu-Asíu. Málfar bréfsins, stíll og orðnotkun er með nokkuð öðrum hætti en vant er í bréfum Páls. Þá hefur verið á það bent, að Páll hafi sannanlega dvalið í Efesus í þrjú ár og reynt að koma þar á fót kristnum söfnuði (Post 18.19-21; 19.1-20; 20.17-38), en af bréfinu sé hins vegar ekki að sjá að fundum höfundarins og lesendanna hafi nokkru sinni borið saman (1.15). Þetta hefur orðið til þess, að biblíuskýrendur hafa haft ýmsar skoðanir á því hver skrifaði bréfið og hvenær. Sumir eru þó á því að Páll sé höfundurinn. Kemur þar einkum til hve bréfinu þykir svipa til annarra skrifa Páls, ekki síst Kólossubréfsins.

Efnisskipan bréfsins

Í Efesusbréfinu eru stutt upphafs- og lokaorð (1.1,2 og 6.21-24). Í meginmálinu er farið yfir kristna trúarkenningu og gefnar leiðbeiningar um það hversu kristinn maður skuli lifa lífi sínu eins og Guðs barn. Efnisyfirlit bréfsins er svofellt:

  • Kveðja, lofgjörð, þakkir og fyrirbæn (1)
  • Kristur færir Guðs börnum einingu og frið (2,3)
  • Líferni þeirri, sem eru líkami Krists. Börn ljóssins (4-6)