Jóh 20.1-10 – Upprisan er nýtt upphaf. Með sama hætti og upphafssetning Jóhannesarguðspalls: „Í upphafi…“, minnir á upphaf Mósebókar (1Mós 1.1), þannig rímar aðkoman að hinni tómu gröf við frásögnina af sköpuninni. Það er fyrsti dagur vikunnar, enn er nótt. Gröfin er tóm. Dauðinn og óreiðan hafa ekki mátt sín meira en sannleikurinn. Ljósið skín líkt og á fyrsta degi sköpunarinnar.