Inngangur að Viðaukum við Daníelsbók

Þetta rit tengist Daníelsbók í Gamla testamentinu sem er opinberunarrit og fjallar um atburði á tímum útlegðarinnar á sjöttu öld f.Kr. Þar kemur Nebúkadnesar Babýloníukonungur við sögu og atburðir á tímum persneska heimsveldisins (538–332 f.Kr.). Daníelsbók segir frá Daníel og vinum hans sem stóðust hinar mestu eldraunir til varnar trú sinni á ofsóknartímum. Hin gríska gerð Daníelsbókar hefur þrjá kafla sem ekki er að finna í hebresku og arameísku gerðinni af bókinni. Þeir eru bæn Asarja (harmljóð með syndajátningu) og lofsöngur ungmennanna þriggja sem tengjast Dan 3.23. Annar kafli er sagan af Súsönnu (uppbyggileg smásaga um guðhrædda konu sem er borin röngum sökum) og er henni venjulega skeytt aftan við Daníelsbók (þ.e. sem 13. kafla) þótt nokkur forn handrit hafi söguna af Súsönnu fremst í bókinni. Þriðja viðbótin er frásagan af Bel og drekanum í Babýlon sem venjulega er 14. kafli Daníelsbókar í fornum handritum (en sá þrettándi í þeim sem hafa söguna af Súsönnu í upphafi bókarinnar). Viðaukarnir eru bænir og frásagnir sem svipar sterklega til áþekkra texta í Daníelsbók. Þær eiga allar eitt sameiginlegt, boðskapinn um að Guð verndi þá sem honum treysta og hlýða boðum hans, jafnvel þótt það kosti lífið.

2018-01-08T22:21:45+00:00Föstudagur 1. desember 2017|Inngangur, Viðaukar við Daníelsbók|