Inngangur að Dómarabók

Dómarabókin er kennd við tímabil dómaranna. Orðið er að því leyti misvísandi að starf dómaranna var ekki fyrst og fremst að dæma í málum manna heldur voru þeir leiðtogar sem kvaddir voru til þegar vá bar að höndum. Þeir voru kappar og bardagamenn sem reyndust leiðtogar þegar þjóðin þurfti á slíkri forystu að halda. Þess er aðeins getið um einn dómaranna, konuna í hópi þeirra, hina litríku Debóru, að hún hafi dæmt í málum manna (4.4–4.5).
Dómaratímabilið hefst með landnámi Ísraelsmanna í Kanaanslandi (um 1200 f.Kr.) og lýkur þegar konungdæmi komst á í landinu (um 1000 f.Kr.). Sú guðfræði sem birtist í ritinu er að hlýðni við Drottin leiðir til blessunar og friðar en óhlýðni leiðir til örðugleika og ósigra. Dómarabókin greinir frá því hvernig þjóðin brýtur stöðugt gegn sáttmálanum við Guð. Í Dómarabókinni má greina ýmis bókmenntaform eins og sjá má af dæmisögu Jótams (9.7–9.12), gátu Samsonar (14.8–14.20) og Debóruljóðinu (5.1–5.31) sem ýmsir telja með elstu textum Gamla testamentisins.

Skipting ritsins

1.1–2.10 Af landnámi Kanaans
2.11–16.31 Dómarar Ísraels
17.1–21.25 Lok dómaratímans

2018-01-08T21:35:03+00:00Föstudagur 1. desember 2017|Dómarabók, Inngangur|