Fimmta plágan: Fjárpest

1 Drottinn sagði við Móse: „Farðu til faraós og segðu við hann: Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér. 2 En neitir þú að sleppa henni og haldir henni áfram fastri 3 mun hönd Drottins koma yfir búfénað þinn í haganum, yfir hesta, asna, úlfalda, nautgripi og sauðfé, og valda þungri sótt. 4 En Drottinn mun greina búfé Ísraels frá búfé Egypta og ekkert mun drepast af því sem Ísraelsmenn eiga.“ 5 Drottinn ákvað einnig stundina og sagði: „Á morgun gerir Drottinn þetta hér í landinu.“
6 Morguninn eftir gerði Drottinn þetta og drapst þá allt búfé Egypta en af búfé Ísraelsmanna drapst ekki nokkur skepna. 7 Faraó sendi þá menn og fékk að heyra að ekkert af búfénaði Ísraels hefði drepist. En hjarta faraós var hart og hann leyfði fólkinu ekki að fara.

Sjötta plágan: Kýli

8 Drottinn sagði við Móse og Aron: „Takið handfylli ykkar af sóti úr bræðsluofni. Móse á að kasta því upp í loftið fyrir augum faraós 9 og það verður að ryki yfir öllu Egyptalandi. Það verður að bólgu sem brýst út í kýlum á mönnum og skepnum um allt Egyptaland.“
10 Þá tóku þeir sót úr bræðsluofni og gengu fyrir faraó. Móse kastaði því upp í loftið. Þá kom bólga sem braust út í kýlum á mönnum og skepnum. 11 Spáprestarnir gátu ekki gengið á fund Móse vegna bólgunnar því að bólgan kom á spáprestana og alla aðra Egypta. 12 En Drottinn herti hjarta faraós og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt við Móse.