7. kafli

Önnur plágan: Froskar

26 Drottinn sagði við Móse: „Farðu til faraós og segðu við hann: Svo segir Drottinn: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér. 27 Neitir þú henni um að fara sendi ég froska yfir land þitt. 28 Fljótið verður morandi af froskum. Þeir skríða upp úr því, koma inn í hús þitt, alveg inn í svefnherbergi þitt og upp í rúm þitt, inn í hús þjóna þinna og þjóðar, inn í bakarofna þína og deigtrog. 29 Froskarnir munu skríða á þér, þjóð þinni og öllum þjónum þínum.“

8. kafli

1 Drottinn sagði við Móse: „Segðu við Aron: Réttu hönd þína með stafnum út yfir fljótin, áveituskurðina og mýrarnar og sendu froskana yfir Egyptaland.“ 2 Aron rétti hönd sína út yfir vatnsból Egyptalands og froskarnir skriðu upp úr þeim og þöktu Egyptaland. 3 Spáprestarnir gerðu þetta einnig með fjölkynngi sinni og sendu froska yfir Egyptaland.
4 Faraó kallaði þá Móse og Aron fyrir sig og sagði: „Biðjið Drottin að hann fjarlægi froskana frá mér og þjóð minni. Þá sleppi ég þjóðinni svo að hún geti fært Drottni sláturfórnir.“ 5 Móse svaraði faraó: „Sýndu mér þann heiður að ákveða hvenær ég á að biðja fyrir þér, þjónum þínum og þjóð svo að froskarnir hverfi frá þér og úr húsum þínum og verði aðeins eftir í fljótinu.“ 6 Faraó sagði: „Á morgun.“ Móse svaraði: „Það verður eins og þú skipar svo að þú komist að raun um að enginn er sem Drottinn, Guð okkar. 7 Froskarnir munu hverfa frá þér, húsi þínu, þjónum þínum og þjóð og verða aðeins eftir í fljótinu.“
8 Móse og Aron gengu burt frá faraó. Síðan hrópaði Móse til Drottins vegna froskanna sem hann hafði sent yfir faraó. 9 Drottinn gerði það sem Móse bað um og froskarnir drápust í húsunum, forgörðunum og úti á ökrunum. 10 Þeim var hrúgað saman í marga hauga svo að landið þefjaði illa. 11 Þegar faraó fann að af létti herti hann hjarta sitt og hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt fyrir.