Hið íslenska biblíufélag óskar félögum, stuðningsfólki og landsmönnum öllum GLEÐILEGRA JÓLA!

Við þökkum þeim fjölmörgu sem eru að styðja okkur til góðra verka. Þetta ár sem senn er á enda hefur verið sérlega kraftmikið hjá okkur. Við gáfum út biblíuapp, gerðum okkur gildandi á alþjóðavettvangi á ný, styrktum tengslin við félaga okkar á Norðurlöndum og við Eystrasalt og gerðum metnaðarfulla áætlun fyrir næsta ár – sem felur það meðal annars í sér að við ætlum okkur að hljóðrita Nýja testamentið með úrvals lesurum þannig að það verði aðgengilegt á öllum stafrænum miðlum. Þá leggjum við grunn að því að útbúa skemmtilegt barnaefni og er stefnan að hrinda því í framkvæmd árið 2020. Við komum okkur fyrir í nýju húsnæði að Lækjargötu 14a og eru þar í góðum félagskap starfsliðs Dómkirkjunnar. Við höfum látið meira að okkur kveða á Facebook með því að deila út orði Guðs á degi hverjum. Það hefur mælst afar vel fyrir og eigum við trúfasta lesendur sem ætíð lesa og marga sem líta við dag og dag. Margir breiða út þessi gullkorn úr Biblíunni með því að deila færslunum og kunnum við þeim bestu þakkir.

Í stuttu máli sagt, Hið íslenska biblíufélag leikur nú sóknarleik og hyggst heldur bæta við í framlínuna á komandi ári! Við finnum hagstæða vinda og sá meðbyr eruð þið sem styrkið okkur og eflið. Þið sem hjálpið okkur að koma Guðs orði til þeirra, um víða veröld, sem sárlega langar til að lesa það, kynnast því og ganga götuna með Jesú Kristi. Þið sem hjálpið okkur svo draumar okkar og áætlanir um metnaðarfull verkefni hér innanlands geti orðið að veruleika; séu að verða að veruleika. Þið sem þekkið máttinn og dýrðina sem Biblían býr yfir og miðlar. Þið sem myndið Hið íslenska biblíufélag.

Við skorum á þau ykkar sem ekki eruð nú þegar félagar að ganga til liðs við okkur, það kostar ekki nema 2000 krónur á ári – og sé þröng í ykkar búi þá göngum við ekki eftir félagsgjaldinu með neinum hætti heldur sýnum ykkur skilning. Félagsaðild er opin bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Það er auðvelt að gerast félagi, á heimasíðu okkar ( https://biblian.is/ ) er hnappur til þess að skrá sig.

Verið velkomin!

 

Með jólakveðju og Guðs blessun,

Guðmundur Brynjólfsson,

framkvæmdastjóri HÍB