48. kafli

21 Þessu landi skuluð þið skipta á milli ættbálka Ísraels. 22 Þið skuluð skipta því með hlutkesti í erfðalönd milli ykkar og þeirra aðkomumanna sem hafa leitað hælis hjá ykkur og hafa eignast börn hjá ykkur. Þið skuluð telja þá með innfæddum Ísraelsmönnum. Þeir skulu ásamt ykkur hljóta erfðaland á meðal ættbálka Ísraels. 23Þið skuluð fá aðkomumanninum erfðaland hjá þeim ættbálki sem hann hefur leitað hælis hjá, segir Drottinn Guð.

49. kafli

1 Þetta eru nöfn ættbálkanna:
Yst í norðri fær Dan einn hlut frá austri til vesturs, frá hafinu í áttina að Hetlón og til Lebó Hamat, og löndin sem heyra til Damaskus eru þar norðan við, næst Hamat. 2 Frá austri til vesturs, með fram landi Dans, fær Asser einn hlut. 3 Frá austri til vesturs, með fram landi Assers, fær Naftalí einn hlut. 4 Frá austri til vesturs, með fram landi Naftalí, fær Manasse einn hlut. 5 Frá austri til vesturs, með fram landi Manasse, fær Efraím einn hlut. 6 Frá austri til vesturs, með fram landi Efraíms, fær Rúben einn hlut. 7 Frá austri til vesturs, með fram landi Rúbens, fær Júda einn hlut.
8 Frá austri til vesturs, með fram landi Júda, er landið sem þið eigið að fá Drottni í afgjald. Það er 25.000 álnir á breidd og nákvæmlega jafnlangt frá austri til vesturs og hinir hlutarnir. Helgidómurinn skal standa á því landi miðju. 9 Landið, sem þið eigið að fá Drottni í afgjald, er 25.000 álnir á lengd og 20.000 á breidd.
10 Hin heilaga landspilda er ætluð eftirtöldum til nytja:
Prestarnir skulu fá landspildu sem er 25.000 álnir á lengd norðan megin, 10.000 álnir á breidd vestan megin og 10.000 álnir á breidd að austanverðu og 25.000 álnir á lengd sunnan megin. Helgidómur Drottins á að standa í spildunni miðri. 11 Hinir vígðu prestar skulu fá þetta land, þeir sem eru niðjar Sadóks. Þeir gegndu þjónustu sinni og villtust ekki frá mér, þegar Levítarnir villtust frá mér, eins og Ísraelsmenn. 12 Það skal vera prestunum til afnota sem afgjald, hluti af afgjaldinu af landinu. Þessi spilda er háheilög og liggur að landi Levítanna.
13 Levítarnir skulu fá jafnstóra landspildu og prestarnir, 25.000 álnir á lengd og 10.000 á breidd, í allt 25.000 álnir á lengd og 20.000 á breidd. 14 Hvorki má selja neitt af því landi né láta í skiptum fyrir annað. Ekki má besti hluti landsins verða annarra eign því að hann er helgaður Drottni.
15 Það land sem eftir er, 5000 álnir á breidd og 25.000 á lengd, er ekki heilagt land. Það skal nýtast borginni fyrir íbúðarhús og beitiland. Borgin á að standa í því miðju.