Föstudaginn 12. október síðastliðinn kynntu stöllurnar þrjár, Katrina Vang, Anna Lise Kærsgård og Bodil á Boðanesi, verkefni 9. bekkjarins síns. Þær hafa búið til biblíulestrarapp, sem er hljóðbók, þar sem m.a. má heyra brot úr Nýja testamentinu og fá biblíuorð dagsins.

Framkvæmdastjóra Hins færeyska biblíufélags var boðið að koma og vera viðstaddur kynninguna, og það verður að segjast eins og er, að þeim fórst hún afar vel úr hendi.

Appið er snoturt og auðvelt í notkun og með sérstökum QR-kóða er hægt að taka mynd af kóðanum (með símanum), og síðan er appinu hlaðið niður af netinu. Upplestur biblíutextans hafa þær sjálfar tekið upp og fengu þær stúlku og pilt í skólanum til þess að lesa. Aðrir nemendur og kennarar skólans hafa aðstoðað við framleiðslu og upptökur.

Fyrir verkefnið voru aðeins nokkur brot úr Nýja testamentinu tekin upp, þar sem samtals tekur um það bil 17 klukkustundir að taka allt upp. En það verður hægt að taka allt upp og bæta við síðar.

Ástæða þess, að þær hófust handa við appið, var sú að þær vildu gjarnan hjálpa fólki að kynnast Biblíunni og Guði betur. Auk þess er þetta einnig þeim mikil hjálp, sem eru blind, lesblind eða eiga erfitt með lestur.

Fleiri hafa m.a. einnig sagt, að þeir geti hugsað sér að hlusta við akstur. Katrina, Anna og Bodil hafa einnig gert könnun á lestrarvenjum nemendanna í Fuglafjarðarskóla. Könnunin leiddi í ljós, að 67,5% nemendanna vildu gjarnan fá app með upplestri á Biblíunni og 52% nemendanna lesa meira og minna í Biblíunni.

Hið færeyska biblíufélag gleðst yfir áhuga nemenda á biblíulestri og vonast til þess að eignast þessi drög, þannig að Færeyingar fái betri aðgang að Biblíunni.

 

Appið heitir FSH (Faðir, Sonur og Heilagur andi).

 

Gunnar K. Nattestad

framkvæmdastjóri Hins færeyska biblíufélags.

 

///

Þorgils Hlynur Þorbergsson íslenskaði