16 Þá skipti hann mönnunum þrjú hundruð í þrjá flokka og fékk þeim öllum horn í hönd, tómar krúsir og blys í hverri krús. 17 Og hann sagði við þá: „Lítið á mig og gerið eins og ég. Þegar ég kem að herbúðunum gerið þá eins og ég geri. 18 Þegar ég þeyti hornið og allir þeir sem með mér eru, þá skuluð þið líka þeyta hornin umhverfis allar herbúðirnar og hrópa: Sverð Drottins og Gídeons.“
19 Gídeon og þeir hundrað, sem með honum voru, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun annarrar varðtíðar og var nýbúið að skipa verði. Þá þeyttu þeir hornin og brutu sundur krúsirnar sem þeir báru í höndum sér.
20 Flokkarnir þrír þeyttu nú hornin og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og hornin í þá hægri til þess að þeyta þau og æptu: „Sverð Drottins og Gídeons.“ 21 Þeir stóðu kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar en í herbúðunum fór allt í uppnám og flýðu menn nú með miklum ópum. 22 Er þeir þeyttu hornin þrjú hundruð beindi Drottinn sverðum hinna gegn sínum eigin mönnum um allar herbúðirnar og flýði allur herinn til Bet Sitta á leið til Serera, allt að útjaðri Abel Mehóla hjá Tabbat. 23 Nú voru Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse kallaðir saman og þeir veittu Midían eftirför.
24 Gídeon hafði einnig sent sendimenn um öll Efraímsfjöll og látið segja: „Farið niður til móts við Midían og varnið þeim yfirferðar yfir Jórdan allt til Bet Bara.“ Þá var öllum Efraímítum stefnt saman og þeir vörnuðu þeim yfirferðar við Jórdan allt til Bet Bara. 25 Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinum megin Jórdanar.