Flokkar Rúbens sýndu mikla hugprýði.
16Hví sast þú milli fjárkvíanna
og hlustaðir á flautuleik smalanna?
Flokkar Rúbens sýndu mikla hugprýði.
17Gíleað hélt kyrru fyrir hinum megin Jórdanar
og hvers vegna dvaldist Dan við skipin?
Asser sat við sjávarströndina
og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.
18Sebúlon er þjóð sem hætti lífi sínu
og eins Naftalí á hæðum landsins.
19Konungar komu og börðust,
þá börðust konungar Kanaans
við Taanak hjá Megiddóvötnum.
Silfur tóku þeir ekkert að herfangi.
20Af himni börðust stjörnurnar,
af brautum sínum börðust þær við Sísera,
21Kísonlækur skolaði þeim burt,
lækurinn forni, lækurinn Kíson.
Gakktu fram, sál mín, kröftuglega.
22 Þá glumdu hófar hestanna
af reiðinni, reið kappanna.
23 „Bölvið Merós,“ sagði engill Drottins,
já, bölvið íbúum hennar
af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar,
Drottni til hjálpar meðal hetjanna.
24 Blessuð framar öllum konum veri Jael,
kona Hebers Keníta,
blessuð framar öllum konum í tjaldi.
25 Vatn bað hann um,
mjólk gaf hún,
rétti honum rjóma
í skrautlegri skál.
26 Hún rétti út hönd sína eftir tjaldhælnum,
hægri hönd sína eftir hamrinum
og sló Sísera, mölvaði höfuð hans,
hjó í gagnauga hans og klauf inn úr.
27 Hann hné niður fyrir fætur henni,
féll út af og lá þar.
Hann hné niður fyrir fætur henni, leið út af
og þar sem hann hné niður
lá hann lífvana.
28 Út um gluggann skimar móðir Sísera,
kallar út um grindurnar:
„Hvað dvelur vagn hans?
Hvað tefur ferð hervagna hans?“
29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara
og hún endurtekur svör þeirra:
30 „Sjálfsagt hafa þeir tekið herfang og eru að skipta því,
ein kona eða tvær á mann,
litklæði handa Sísera að herfangi,
glitofin litklæði að herfangi,
litklæði og tvo glitofna dúka um háls sigurvegarans.“
31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn.
En megi þeir sem þig elska
ljóma sem sólarupprás.
Var nú friður í landi í fjörutíu ár.