Harmljóð um faraó og fylgdarlið hans

17 Á fimmtánda degi fyrsta mánaðar í tólfta árinu kom orð Drottins til mín:
18 Mannssonur, harma þú dýrð Egyptalands og sendu hana niður til þjóðanna. Sendu hana niður í undirheima, til þeirra sem grafnir eru.
19Berðu af einhverjum að fegurð?
Farðu niður og leggstu hjá hinum óumskornu.
20Þeir munu falla
innan um hina vopnbitnu.
21Hinir sterku kappar tala við Egyptaland
og bandamenn þess mitt úr ríki dauðra og segja:
„Hinir óumskornu, hinir vopnbitnu,
fóru niður og lögðust fyrir.“
22 Þarna er Assúr og allt hans lið,
umhverfis hann eru grafir hans.
Þeir voru allir reknir í gegn,
féllu fyrir sverði.
23 Honum var fengin gröf
í hyldýpinu,
lið hans er umhverfis gröf hans.
Þeir voru allir reknir í gegn,
féllu fyrir sverði,
þeir sem breiddu út skelfingu
á landi lifenda.
24 Þarna er Elam og allt hans lið
umhverfis gröf hans.
Þeir voru allir reknir í gegn,
féllu fyrir sverði.
Þeir fóru óumskornir
til undirheima.
Þeir sem breiddu út skelfingu
á landi lifenda,
þeir bera nú skömm sína
ásamt þeim sem grafnir voru.
25 Elam og öllu liði hans var fengin hvíla
meðal þeirra sem reknir voru í gegn.
Umhverfis hann eru grafir þeirra,
allra hinna óumskornu
sem voru lagðir sverði
og breiddu út skelfingu
á landi lifenda.
Þeir bera nú skömm sína
ásamt þeim sem grafnir voru.
Þeim var komið fyrir innan um vopnbitna menn.
26 Þarna eru Mesek og Túbal og allt þeirra lið.
Umhverfis hann eru grafir þeirra,
allra hinna óumskornu
sem voru lagðir sverði
þó að þeir breiddu út skelfingu
á landi lifenda.
27 Þeir liggja ekki hjá föllnum köppum fortíðar
sem stigu herklæddir niður í undirheima
og lögðu sverð sín undir höfuð sér
en skildir þeirra lágu á beinum þeirra.
Því að ótti við kappana
hvíldi yfir landi lifenda.
28 Þú verður einnig mölbrotinn á meðal óumskorinna
og munt liggja hjá þeim sem lagðir voru sverði.
29 Þarna er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar.
Þrátt fyrir hreysti sína var þeim komið fyrir
innan um þá sem lagðir voru sverði.
Þeir liggja hjá hinum óumskornu
og þeim sem grafnir voru.
30 Þarna eru allir höfðingjar landanna í norðri
og allir frá Sídon. [
Þeir stigu niður ásamt vopnbitnum mönnum
þrátt fyrir skelfinguna sem þeir breiddu út.
Þeir urðu til skammar þrátt fyrir hreysti sína.
Þeir liggja óumskornir hjá þeim sem lagðir voru sverði
og bera skömm sína
ásamt þeim sem grafnir voru.
31 Faraó mun sjá þá
og láta huggast eftir missi allrar dýrðar sinnar.
Faraó og allar hersveitir hans
hafa nú verið lagðir sverði,
segir Drottinn Guð.
32 Því að ég hef breitt út ótta
við hann á landi lifenda.
Faraó og öllum hersveitum hans verður komið fyrir
á meðal óumskorinna, hjá þeim sem lagðir voru sverði,
segir Drottinn Guð.