Bókin bókanna: Hvers konar bókmenntir eiga Biblíunni skuld að gjalda?

2018-09-07T15:30:52+00:00Fimmtudagur 6. september 2018|

MARILYNNE ROBINSON:

Í hugmyndakerfi okkar og í listum er Biblían bæði fyrirmynd og viðfangsefni í mun víðtækari mæli en við getum eða munum nokkurn tíma geta gert okkur grein fyrir. Hvort heldur er meðvitað eða ómeðvitað.

Bókmenntir geta í eðli sínu vísað til sjálfra sín, og jafnvel þegar tilvísanir í Biblíuna í vísindaskáldsögum samtímans eru aðeins til skrauts eða mælskuauka — já jafnvel þótt það sé ekki endilega meiningin — eru þær samt eðlileg afleiðing þrautseigju kraftmikillar bókmenntahefðar. Óbeinar vísanir í Biblíuna geta komið fram með vissan alvarleika eða þá að þær hljóta ekki alltaf brautargengi í samhengi nútímalegrar vísindaskáldsögu. En það er engin hætta á ferð. Allar vísindaskáldsögur eru skot í myrkri, og taka verður viljann fyrir verkið í misheppnaðri tilraun til að fanga alvarleikann.  Hvað sem því líður, þá sýna þessar tilvísanir fram á það, að í menningunni er lagður sérstakur merkingarblær sem getur gert óljósan dauðdaga að píslarvætti og vott af fyrirgefningu að góðverki.  Hver sem trúarstaða rithöfundar eða lesara kann að vera, hafa slíkar tilvísanir merkingu sem er meira en aðeins prjál, þar sem þær viðurkenna þá flóknu reynslu sem er undirstaða vísindaskáldsögunnar.

Jonathan gamli Edwards skrifaði: „Allt frá öndverðu hefur það verið háttur Guðs að opna ný svið og draga fram í dagsljósið nýja hluti og undraverða.“ Þessi svið eru frásagnaraðferð Biblíunnar, sem gerir ráð fyrir stöðugri framþróun sögunnar, áframhaldandi rás þýðingarmikilla atvika, allt frá ævafornum deilum tveggja bræðra á akri til kvöldverðar með aðkomumanni í Emmaus. Það er gífurleg kaldhæðni dulin í hinu lítilmótlega sem sviptir hulunni af hinu nýja og undraverða. Hin mikilvægustu augnablik ganga á milli manna sem eru svo jaðarsettir að viðtekin saga myndi ekki gefa þeim gaum; utangarðsmenn, hinir þjökuðu, fólk sem er gjörsamlega ómeðvitað um að líf þeirra hefur afleiðingar. Hin mikla tiltrú á hinni bókstaflegu raunhyggju felst í því að venjulegt líf er þrungið nokkurs konar mikilvægi sem réttlætir eða krefst sinna endalausu áréttinga hins hversdagslega. Þar mætti auðvitað nefna glæpi, ástríður og ósigur, hversu lítilmótlegt slíkt kann að virðast í augum heimsins.  Þessi tiltrú er á engan hátt óhjákvæmileg.  Í flestum menningarheimum hefur verið skrifað um hálfguði, konunga og hetjur. Hverjar sem hinar dýpri ástæður eru fyrir hrifningu raunsæismannsins á hinu venjulega, það er hinu viðtekna, jafnvel þegar það er grimmt, er fólki einfaldlega tekið eins og það er, eftir því sem unnt er og þess krafist að tilfinningaleysi eða lágkúra skipti máli. Spámenn Gamla testamentisins gerðu þetta líka.

 

Nokkur stórverk hinna vestrænu bókmennta beina spjótum sínum afar náið að spurningum sem vakna innan kristindómsins. Þau svara þeirri sömu hvöt sem leitast við að setja kjöt á bein Ritningarinnar og kenningarinnar, að prófa þær með því að beita áhrifaríku ímyndunarafli, sem sjá má í gömlu málverkunum af boðun Maríu eða veginum til Damaskus. Hvernig er hægt að skilja grimmd og spillingu hjartkærrar borgar sem hluta eilífrar alheimsskipanar? Hverjar yrðu sögulegar afleiðingar brottrekstrarins frá Eden, ef skilja má fallið sem guðlega forsjón? Hvað ef áskorun Jobs gagnvart réttlæti Guðs hefði ekki verið ægt eða hún þögguð niður af hinni villtu sköpunardýrð? Hvernig myndi samfélag (ævinlega) duttlungafulls kristindóms bregðast við návist sannarlega saklauss og falslauss manns? Dante dró upp frábæra mynd sína af guðlegum ásetningi, réttlæti og náð sem byggingarlist tíma og rúms. Milton kannaði hina fornu, kalvínsku kenning, að hin fyrsta synd hefði verið felix culpa, fall til heilla, fyrir guðlega forsjón vegna þess að hún undirbjó jarðveginn fyrir endanlega sáttargjörð heimsins við Guð. Þannig er hans Satan dýrðlegur, og það helvíti sem er undirbúið fyrir handbendi hans er áberandi þolanlegt. Hvað er um Melville að segja? Hann heimfærði hið stórkostlega ljóð við lok Jobsbókar upp á heim reynslunnar og stillti því upp andspænis manni sem aðeins getur haldið í stolt af ættstofni sínum þar til þessi heimur yfirbugar hann. Guð hans, sem stærir sig af hinu stórkostlega ofsafengna og óhemjandi, gæti spurt: „Hefur þú séð þjón minn, Ahab?“ Og svo er það„fáviti“ Dostojevskýs, Myshkin prins, sem tvístrar og veitir mótspyrnu með því að segja sannleikann og meina ekkert illt með honum, sá Kristur sem segir: „Blessaður er sá sem kemur mér ekki til varnar.“

 

Hvert og eitt þessara verka endurspeglar djúpstæða þekkingu á Ritningunni og hefð af hálfu rithöfundarins. Slíka þekkingu er aðeins að finna á meðal þeirra sem taka þau nógu alvarlega til þess að brjóta hinar dýpstu spurningar til mergjar. Þessir textar eru ekki líkingar, vegna þess að í hverju tilfelli fyrir sig hefur rithöfundurinn stillt upp vandamáli innan altækra hugsana sem eru galopnar fyrir vangaveltum hvers konar þegar fallist er á viðfangsefnið. Hér er notkun óbeinna vísana í Biblíuna ekki táknsæisstefna eða myndhverfing, sem hvort tveggja er mælskulistartækni, ætluð til að auðga frásögn þar sem grundvallarhagsmunir fara ekki saman við stærri samsvörun við Biblíuna. Í raun líkjast þessir miklu textar sókratískum samtölum, þar sem áhættan er fólgin í að ganga út frá því að merkingunni megi sannarlega snúa upp á takmarkað form tungumálsins, þar sem ekki er hægt að ganga út frá því að hægt sé að uppgötva merkinguna með þessum rökum. Líkt og í málverki koma þeir merkingunni til skila í fegurð.

 

Páskaguðsþjónustan er hápunktur „Hljóðsins og ofsans“ (The Sound and the Fury) þar sem unnið er með vísindaskáldsögu og Ritninguna í gagnverkandi túlkun. Rétt eins og Dostojevský setur Faulkner Krist í hlutverk „fávita“. Samt er það svo, að á meðan hinn flogaveiki Myshkin er einfaldur og fremur bernskur, er hann í raun og sann ekki fávís nema í augum þeirra sem hneykslast á honum. Faulkner gengur skrefi lengra með þeirri hugmynd að hinn 33 ára gamli Benjy skynji og skilji sjálfan sig sem þriggja ára barn. Svo óalandi og óferjandi sem hann er, fylgir hann hinni óendanlega þolinmóðu þjónustustúlku, Dilsey, til fagnaðar í litlu kirkjunni hennar. Prestur nokkur sem beðinn er um að taka til máls af þessu tilefni, flytur svo einstaklega sundurlausa prédikun, sem virðist vera svo brotakennd nema í eyrum þeirra sem hlýða á, vegna þess að þeir þekkja málfar hans svo vel, að „orða gerist ekki þörf“. Þetta minnir á það sem Páll segir, að þegar við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber, biður andinn fyrir okkur „með andvörpum sem engum orðum verður að komið.“[1] Þar sem prédikarinn talar í orðatiltækjum og ákveðnu hljómfalli sem eiga að vera orðfæri guðsþjónustunnar, spyrðir hann saman hina löngu ánauð í Egyptalandi við hinar óteljandi kynslóðir manna sem látist hafa á meðan heimurinn bíður endurnýjunar sinnar. Hann skírskotar til hinnar blíðu raunhyggju bernsku Krists, bernsku allra manna og spyrðir saman fjöldamorð hinna saklausu við krossfestinguna. Þetta eru sígildar túlkunaraðferðir. Sjálfar biblíusögurnar fjalla lauslega um ýmislegt með þessum hætti, sjá fyrir dauða Krists og minnast þessara fyrirboða og annarra atvika sem dregnir hafa verið upp um spádóma Gamla testamentisins þar til sagan nær hámarki. Prédikarinn lýsir dauðsföllum kynslóða manna líkt og hefðu þau verið af völdum flóðanna í Fyrstu Mósebók er gjöreyddu heiminum og síðan „dauða hinna upprisnu“ sem hafa blóð Lambsins og minnast þess.

 

Þetta er páskaprédikun, þrungin fullvissu um að handan dauða er líf, að „fórnfæring, afneitun og tImi“ sem hafa afmyndað andlit Dilseys munu líða undir lok og það í dýrð. En þýðingarmestu og hughrifaríkustu orðin koma fyrir í lýsingu prestsins á hinum krossfestu, „þjófnum og morðingjanum og hinum sísta þeirra.“ Notkun hans á orðasambandinu „hinum sísta þeirra“, þegar átt er við Jesú, kemur úr dæmisögunni um hinn æðsta dóm í 25. kapítula Matteusarguðspjalls, þar sem hinn krýndi Mannssonur segir: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka… Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“[2] Á því augnabliki sem tign Krists opinberast, verður sjálfsmynd hans samofin þeim sem eru í sárustu neyð. Þannig er Benjy Faulkners og í raun sérhver Benjy Kristur, ekki með myndrænum hætti, heldur með yfirskilvitlegum hætti. Dilsey, sem hefur lagt á sig þá endlausu byrði að ala önn fyrir honum, hefur fætt og klætt Krist sjálfan, og hún hefur verið Kristur í umönnun sinni á honum. Hún hlýtur að hafa vitað þetta allan tímann — textinn er ekki torskilinn — en góð prédikun verður til þess að jafnvel alkunnum sannleika verður hrundið í framkvæmd. Orðið sem enn á ný hefur gagntekið prédikarann er Kristur, sem samkvæmt hefðinni er nálægur í breyskleika, í miskunn og í sannleika. Hinn endanlegi persónuleiki í sýn Dilseys kemur fram er hún segir: „Ég er hin fyrsta og síðasta, upphafið og endirinn.“[3] Þetta er orðfæri Opinberunarbókarinnar og þetta eru orð „Lambsins sem var slátrað“, hins opinberaða Krists prédikunarinnar. Alla smásöguna má skilja í samhengi við óbeina tilvísun í prédikunina, önnur saga sögð af „fávita“, óskiljanleg á yfirborðinu en felur í raun í sér djúpstæða merkingu.

 

Í okkar skrýtna augnabliki menningarinnar er nauðsynlegt að gera greinarmun á trúarlegum áróðri og trúarlegri hugsun. Í hinu síðarnefnda er reynt að viðhafa nokkurs konar réttlæti gagnvart gríðarmiklu erfiðleikum sem til staðar eru í hefðinni. Hinn mikli vandi kristindómsins felst ævinlega í hógværð þeirrar manneskju sem Guð er sagður hafa holdgerst í og hinni ströngu kröfu til þeirrar hefðar að Guð sé nálægur í þeim mönnum sem eru fyrirlitnir og sem hafnað hefur verið. Gallinn við það að hinir duttlungafullu, kristnu heimshlutar Rússlands og Mississippi fullnægi með einhverjum hætti tilefni þess að Kristur sé þar mitt á meðal, yrði sá að það yrði alls staðar sístæður sannleikur. En guðfræði er aðeins að hluta til félagslegs eðlis. Um síðir varðar hún valdsvið sýnar um heim sem í reynd er alveg eins og þessi. Prédikunin túlkar orðlausan fyrsta kapítula Benjys, sögu sem greinir frá ástríðufullri minningu um blíðu og kærleika. Faulkner biðst vægðar og vekur hjá Benjy hugsanir sem eru of djúpar til þess að nokkur rithöfundur geti tjáð þær í orðum, nema sá sem er örlátur og mikill.  Allir vita að lífið er guðvana þegar slíkar hugsanir eru vanræktar, eins og svo oft gerist. Sem staðhæfing um mannlega meðvitund og þann raunveruleika sem á við um okkur, er þessi sýn ætíð kunnugleg og aldrei hefur verið auðveldara að meðtaka hana. Páll vitnar í gamlan sálm í bréfi sínu til Filippímanna, þar sem segir að Jesús „svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“[4] Og þetta minnir á þjóninn sem lýst er í Jesajaritinu; „líkur manni sem men byrgja augu sín fyrir, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.“[5] Í samúðarfullri kröfu sinni, þar sem hinum merkingarþrungna boðskap er deilt í hversdagslegu lífi, gæti Biblían aðeins tjáð þann sannleika sem flest okkar bera skynbragð á. En sem bókmenntaleg arfleifð eða minning hefur hún styrkt hina dýpstu hvöt bókmennta okkar — og þjóðfélagsmenningu okkar.

 

------
Nú nýlega kom út sagan Gilead í íslenskri þýðingu sr. Karls Sigurbjörnssonar. 
En höfundur þeirrar sögu er einmitt höfundur þessarar greinar.
Metsöluhöfundurinn Marilynne Robinson er einn virtasti rithöfundur samtímans og 
bækur hennar hafa hlotið öll helstu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna.

 

[1] Rm 8.26

[2] Mt 25.35 og 25.40b

[3] Vísað til Op. 22.13. Orðfæri óljóst í frumtexta; „Ise seed de first en de last,“ og  „I seed de   beginnin, en now I sees de endin.“ Nokkuð ljóst er þó við hvað er átt. (ÞHÞ).

[4] Fil 2.7-8

[5] Jes 53.3b

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson íslenskaði

Title

Fara efst