29. kafli

10 Þess vegna held ég nú gegn þér og kvíslum þínum og geri Egyptaland að rústum og eyðimörk frá Migdól til Sýene og að landamærum Kúss. 11 Hvorki maður né dýr munu stíga þar fæti né fara þar um og það verður óbyggt í fjörutíu ár. 12 Ég geri Egyptaland að eyðimörk innan um önnur eydd lönd og borgir landsins skulu liggja í eyði í fjörutíu ár eins og aðrar borgir í rústum. Ég mun tvístra Egyptum á meðal framandi þjóða og dreifa þeim um löndin.
13 Enn fremur segir Drottinn Guð svo: Þegar fjörutíu ár eru liðin mun ég safna Egyptum saman frá þjóðunum sem þeim var dreift á meðal. 14 Þá mun ég gerbreyta högum Egypta og flytja þá aftur til Patróshéraðs, en þaðan eru þeir. Þar munu þeir mynda lítilfjörlegt ríki, 15 lítilfjörlegra en önnur konungsríki. Það mun ekki framar hefja sig yfir aðrar þjóðir. Ég mun gera þá of fáa til að drottna yfir öðrum þjóðum. 16 Ísraelsmenn munu ekki treysta Egyptum framar og ekki minna mig oftar á sekt sína með því að fylgja þeim. Þá skulu þeir skilja að ég er Drottinn Guð.

Sigur Nebúkadresars á Egyptum

17 Á fyrsta degi fyrsta mánaðarins á tuttugasta og sjöunda árinu kom orð Drottins til mín: 18 Mannssonur, Nebúkadresar, konungur í Babýlon, hefur látið her sinn vinna stórvirki á Týrus. Hvert höfuð varð sköllótt og hver öxl varð slitin. En hvorki hann né her hans hlutu nein laun frá Týrus fyrir verkið sem þeir unnu gegn henni.
19 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Hér með gef ég Nebúkadresari, konungi í Babýlon, Egyptaland. Hann mun taka með sér fjársjóði Egypta, ræna því sem þeir hafa rænt og taka herfang þeirra herfangi og það verða laun hers hans. 20 Ég hef fengið honum Egyptaland að launum fyrir erfiðið sem hann lagði á sig fyrir mig, segir Drottinn Guð. 21 Á þeim degi læt ég Ísraelsmönnum vaxa horn[ og ég mun ljúka upp munni þínum meðal þeirra. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.

30. kafli

Dómur Drottins yfir Egyptalandi

1 Orð Drottins kom til mín:
2Mannssonur, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð:
Grátið og kveinið yfir þessum degi.
3Því að dagurinn er í nánd,
dagur Drottins er í nánd,
dagur dimmra skýja.
Hann verður endadægur þjóðanna.
4Sverð kemur gegn Egyptalandi
og Kús tekur að nötra
þegar hinir vegnu falla í Egyptalandi
og fjársjóðir landsins verða teknir
og grunnmúrar þess jafnaðir við jörðu.
5Fólkið frá Kús, Pút og Lúd,
hinar ólíkustu þjóðir, fólk frá Kúta
og fólk frá landinu, sem ég gerði sáttmála við,
mun falla fyrir sverðinu ásamt þeim.