Skelfist ekki

1 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins. 2 Hann sagði við þá: „Sjáið þið allt þetta? Sannlega segi ég ykkur, hér verður ekki steinn yfir steini, allt verður lagt í rúst.“
3 Þá er Jesús sat á Olíufjallinu gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: „Seg þú okkur, hvenær verður þetta? Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“
4 Jesús svaraði þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu. 6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. 7Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. 8Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. 10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. 11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. 12 Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna. 13 En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn. 14 Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.

Trúið því ekki

15 „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað“ – lesandinn athugi það – 16 „þá flýi þeir sem í Júdeu eru til fjalla. 17 Sá sem er uppi á þaki fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. 18 Og sá sem er á akri skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 20 Biðjið að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. 21 Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar. 22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu verða þeir dagar styttir.