Þegar Skóli norska samfélagsins (Norwegian Community School) hóf göngu sína fyrir 40 árum var markmiðið fyrst og fremst að bjóða norskum kristniboðabörnum í Austur-Afríku upp á góða skólagöngu. En í dag sækja skólann miklu fleiri nemendur en litlir drengir með ljósa lokka sem tala vesturnorska mállýsku.

Skóli norska samfélagsins (Norwegian Community School, NCS) er í eigu Lútherska kristniboðssambandsins í Noregi (NLM (Norsk Luther Misjonssamband)) og rekinn af því, og um þetta 40 ára skeið eru þau ófá, kristniboðabörnin sem hafa stundað nám sitt þar. Enn sem fyrr koma margir nemendur frá kristniboðsheimilum, en nú telst það nánast ekki lengur til tíðinda að þar séu nemendur með allt öðruvísi bakgrunn: Ástæðan er sú að undanfarin ár hafa fleiri börn af norsk-sómölskum uppruna sótt um skólavist.

 

Ekki kristinn skóli

Margunn Helgøy er skólastjóri NCS. Hún segir að breytingar í nemendahópnum hafi ekki átt sér stað vegna breytinga í skólanum, heldur vegna þess að hróður skólans hefur borist sífellt víðar um hið norsk-sómalska umhverfi í Keníu.

Mikilvæg forsenda þess að þetta geti átt sér stað er sú að ekki sé viðurkennt að skólinn sé kristinn, heldur sé hann norskur skóli í útlöndum. Þetta felur það meðal annars í sér að íslam og kristin trú eru að mörgu leyti jafnrétthá trúarbrögð, á sama hátt og í opinberum skólum í Noregi, segir Helgøy.

Hún hittir af og til trúboðsvini sem furða sig á því að NLM rekur skóla sem ekki er viðurkenndur sem kristinn einkaskóli. En þetta er í fullu samræmi við mat skólastjórnarinnar.

Skólinn vill hafa úrval nemenda með breiðan bakgrunn innan sinna raða, bæði hvað varðar þjóðerni og lífssýn. Þannig komast nemendurnir okkar í kynni við eðilegt, daglegt líf í norskum skóla og verða því betur undirbúnir, fari svo að einhverjir þeirra flytji til Noregs, telur Helgøy.

 

Alveg eðlilegt

Yasmin Gedi og Silas Mjølhus eru bæði á miðstigi í NCS. Yasmin er múslími og Silas er kristinn. Þeim finnst það fínt að bæði kristnir nemendur og múslímar sæki skólann.

Það er nú alveg eðlilegt. Við pælum ekkert í því, segja þau.

Þau tala lítið saman um trú sína, enda þótt það viðfangsefni komi sjálfsagt upp þegar rætt er um mismunandi trúarbrögð í lífsleikninni. Trú þeirra er annars lítið rædd í daglegu lífi. Yasmin gengur venjulega ekki með hijab-slæðu nema í föstumánuðinum ramadan.

Þegar ég mætti með hijab-slæðu í fyrsta skiptið töluðu þau bara pínulítið um einmitt það, annars erum við saman alveg eins og aðrir vinir, segir hún.

 

Frábært að það eru engar helgistundir lengur

Silas, sem er í fimmta bekk telur að skólinn hefði næstum því verið alveg eins þótt allir nemendurnir væru af sama þjóðerni og hefðu sama trúarbakgrunn.

Mér finnst ekki hafa verið sérstaklega mikill munur. Ef til vill hefðum við haft helgistund á hverjum degi þar sem allir væru kristnir, segir hann hugsi.

Þegar Yasmin hóf nám sitt í skólanum fyrir sex árum voru kristnar helgistundir að morgni dags. Þær eru ekki lengur við lýði.

Það var alveg ágætt að það voru helgistundir, en hvað mig varðar er betra að þeim sé sleppt. Af og til gat þetta verið svolítið erfitt fyrir mig. Stundum getur þetta verið svolítið asnalegt fyrir múslíma í hádegismatnum, þegar boðið er upp á flesk eða annað svínakjöt. En annars eru margir kostir við það að ganga í skóla með svona mörgum kristnum krökkum. Það er til dæmis ekkert blótað hérna, sem er nokkuð sem við múslímar metum líka mjög mikils, segir sjöundabekkingurinn.

 

Kostur fyrir nemendurna

Helgøy leggur áherslu á að í NCS eigi kristindómurinn að skipa stærri sess en aðrar lífsskoðanir, til dæmis í lífsleikni og þegar haldið er upp á kristnar hátíðir..

En ef til vill er staða íslams í raun sterkari hér en í öðrum norskum skólum, því að fjöldi múslíma hjá okkur er meiri í prósentum talið og í samfélaginu allt í kringum okkur eru stórir hópar múslíma, sem gerir það að verkum að við mætum þeim í ríkari mæli í dagsins önn.

Hvernig getur gildismat NLM haft áhrif á skólann hér með slíkri viðurkenningu?

NLM hefur áhrif á skólann, þar sem hann er í eigu NLM, á þann hátt að nemendur hitta starfslið og aðkomufólk, sem tengjast samtökunum, bæði í hádegismat og í erli dagsins. Þau sem eru á svæðinu heimsækja skólann og hafa þannig sín áhrif, bæði á umhverfið og samfélagið, segir Helgøy.

 

Góður skóli

 Bæði nemendur og kennarar eru sammála um það að í NCS sé frábært að stunda nám. Smæð skólans er mikill kostur.

Það er auðveldara að fá hjálp þegar hennar er þörf. Svo kynnist maður næstum því öllum í skólanum vel. Flestir eru með í því sem fram fer í frímínútunum, segir Yasmin.

Silas nefnir einnig góðan félagsskap.

Allir taka sameiginlegan þátt í öllu, í stað þess að fylgja bekkjum. Kennararnir taka líka virkari þátt í því sem er að gerast, segir hann að lokum.

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur íslenskaði