Ótrú eiginkona

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, leiddu Jerúsalem andstyggilega breytni hennar fyrir sjónir 3 og segðu: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Þú átt ætt og uppruna í landi Kanverja. Faðir þinn var Amoríti en móðir þín Hetíti. 4 Það er að segja af fæðingu þinni að daginn sem þú fæddist var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú böðuð í vatni, ekki núin salti og ekki vafin reifum. 5 Enginn leit til þín vægðarauga eða hafði næga samúð með þér til að gera þér neitt af þessu til góða. Þvert á móti var þér hent út á berangur, svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist.
6 Þá gekk ég fram á þig og sá þig sprikla í blóði þínu. Þá sagði ég við þig þar sem þú lást alblóðug: Lifðu 7 og dafnaðu. Ég gerði þig eins og blóm í haga. Þú óxt úr grasi og varðst gjafvaxta. Brjóstin urðu stinn og hár þitt óx en nakin varstu og klæðlaus sem fyrr. 8 Þá varð mér aftur gengið fram á þig og þegar ég virti þig fyrir mér sá ég að þinn tími var kominn, tími til ásta. Ég breiddi kápulaf mitt yfir þig og huldi nekt þína. Ég vann þér eið og gerði við þig sáttmála, segir Drottinn Guð, og þú varðst mín. 9 Því næst baðaði ég þig úr vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig olíu, 10 bjó þig skartklæðum, setti á þig ilskó úr dýrindis leðri,[ sveipaði þig líni og hjúpaði þig silki. 11 Ég skreytti þig skarti, dró armbönd á handleggi þína og lagði men um háls þér, 12 setti hring í nasir þér, eyrnahringi í eyru þér og setti dýrindis djásn á höfuð þér. 13 Þú skreyttir þig gulli og silfri og klæddist líni, silki og skrautvefnaði, þú hafðir fínmalað mjöl, hunang og olíu til matar og þú varst ægifögur og hlaust jafnvel drottningartign. 14 Orðrómurinn um fegurð þína barst til framandi þjóða því að hún varð fullkomin vegna skartsins sem ég hafði sett á þig, segir Drottinn Guð.
15 En þú reiddir þig á fegurð þína og orðið sem af þér fór og hófst að stunda skækjulifnað og þröngvaðir hórdómi þínum upp á hvern þann sem átti leið um og þú varðst hans. 16 Og af sumum skartklæða þinna gerðir þú þér marglitar fórnarhæðir og hóraðist á þeim.[ 17 Þú tókst gersemar þínar, sem voru úr gulli mínu og silfri og ég hafði gefið þér, og gerðir úr þeim líkneski af karlmönnum og hóraðist með þeim. 18 Þú tókst einnig skrautklæði þín og lagðir þau yfir líkneskin og settir einnig olíu mína og reykelsi fram fyrir þau. 19 Matinn, sem ég gaf þér, mat úr fínmöluðu mjöli, olíu og hunangi, sem ég gaf þér að eta, barst þú fram fyrir þessi líkneski sem þekkan fórnarilm. Já, þannig var það, segir Drottinn Guð. 20 Þú tókst synina og dæturnar sem þú fæddir mér og færðir líkneskjunum í sláturfórnir til matar. Nægði hórdómur þinn ekki?