Hið ytra og innra

1 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu: 2 „Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir þvo ekki hendur sínar[ áður en þeir neyta matar.“
3 Hann svaraði þeim: „Hvers vegna brjótið þið sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar ykkar? 4 Guð hefur sagt: Heiðra föður þinn og móður, og: Hver sem formælir föður eða móður skal deyja. 5 En þið segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: Það sem ég hefði átt að styrkja þig með gef ég til musterisins, 6 hann þarf ekki að heiðra föður sinn [eða móður][. Þið ógildið orð Guðs með erfikenningu ykkar. 7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um ykkur er hann segir:
8Þessir menn heiðra mig með vörunum
en hjarta þeirra er langt frá mér.
9Til einskis dýrka þeir mig
því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.“

10 Og Jesús kallaði til sín mannfjöldann og sagði: „Heyrið og skiljið. 11 Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.“
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: „Veistu að farísearnir fyrtust við það sem þú sagðir?“
13 Jesús svaraði: „Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða. 14Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan falla báðir í gryfju.“
15 Þá sagði Pétur við Jesú: „Skýrðu fyrir okkur líkinguna.“
16 Hann svaraði: „Hafið þið ekki enn skilið? 17 Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? 18 En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. 19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. 20 Þetta er það sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.“