Síðustu orð Davíðs

1 Síðustu orð Davíðs hljóða svo:
Svo segir Davíð, sonur Ísaí,
þannig mælir maðurinn sem hátt var settur,
hinn smurði Guðs Jakobs
sem lofaður var í ljóðum Ísraels:
2Andi Drottins talaði af munni mínum,
orð hans var mér á tungu.
3Guð Ísraels talaði,
klettur Ísraels sagði við mig:
„Sá sem ríkir í réttlæti,
sá sem ríkir með lotningu fyrir Drottni,
4hann er eins og dagsbirtan
þegar sólin rís á heiðum morgni,
þegar grængresið sprettur eftir regnskúr.“
5Er ekki ætt mín studd af Guði?
Því að hann hefur gert við mig ævarandi sáttmála
þar sem allt er í föstum skorðum.
Já, allt sem var mér til heilla,
allt sem ég óskaði,
lét hann dafna.
6En illmennin eru öll eins og þyrnar
sem kastað er út
því að enginn tekur á þeim með hendinni.
7Ef einhver ætlar að snerta þau
vopnast hann sverði og spjóti,
þau verða brennd í eldi.

Hetjur Davíðs

8 Þetta eru nöfnin á hetjum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti var foringi hinna þriggja. Það var hann sem sveiflaði spjóti sínu og felldi átta hundruð menn í einu. 9 Næstur honum á meðal hinna þriggja hetja var Eleasar, sonur Dódó frá Akía. Hann var með Davíð í Pas Dammím þegar Filistear söfnuðust þar saman til bardaga. Þegar Ísraelsmenn 10 hörfuðu stóð hann fastur fyrir og hjó Filisteana niður þar til hann þreyttist í hendinni og hönd hans var kreppt föst um sverðið. Þann dag veitti Drottinn mikinn sigur. Herinn sneri aftur með honum, þó aðeins til að taka herfang.
11 Næstur honum var Samma Hararíti, sonur Age. Einhverju sinni höfðu Filistear safnast saman við Lekí. Þar var akurspilda alsprottin linsubaunum. Þegar herinn flýði fyrir Filisteum 12 nam hann staðar á miðjum akrinum og varði hann og hjó Filisteana niður. Þannig veitti Drottinn mikinn sigur.