«Þá svöruðu þeir: „Hefjumst handa við að byggja.“ Síðan tóku

þeir til við þetta góða verk»

(Nehemía 2.18).

 

Kynni Ann-Catherine Kvistad af Haítí hafa haft mikil áhrif á hana. Óskin um að fá Biblíur og bækur til afnota í skólanum ræður þar mestu.

 

Hvað er þér minnisstæðast frá heimsókn þinni til Haítí í vetur?

Það hlýtur að vera setningin: „Börnin vantar Biblíur, frú!“ Þessi orð heyrði ég oft og mörgum sinnum. Sem gesti frá hinum friðsæla Noregi fannst mér aðrir áhrifaþættir vera meira ríkjandi, á borð við sult og fátækt, ofbeldi og náttúruhamfarir — auk kynnanna af vúdú-hefðinni. En það er óskin eftir Biblíum sem upp úr stendur.

 

Er það fólkið sjálft sem biður um Biblíur?

Já, eins og ég hef upplifað víðar eru það íbúar landsins sem þekkja kringumstæður best. Þeir hafa lengi velt vandamálum sínum fyrir sér, og þeir hafa komist að því að lausnina er að finna í Biblíunni.

Einn skólanna sem ég heimsótti, skortir eiginlega flest: Lítið er um kennslugögn, þakið lekur og þar er ekkert bókasafn. Samt hefur verið haft samband við Hið haítíska biblíufélag og spurt um kristin hefti, Biblíur og Nýja testamenti handa nemendunum.

 

Hvers vegna er spurt eftir Biblíum og bókum, þegar við svona mörg, ólík vandamál er að glíma?

Ég fékk mismunandi svör við þessu, allt eftir því við hvaða áskoranir var að glíma á ólíkum svæðum. En ég get dregið svörin saman með þessum hætti: Í fyrsta lagi verður Biblían þess valdandi að fólk leggur af vúdú-sið, tekur sína eigin afstöðu og fer að finna fyrir elsku Guðs. Í öðru lagi gefur Biblían von um betri framtíð, jafnvel fyrir hin allra fátækustu. Og í þriðja lagi fær Biblían fólk til þess að leggja af ofbeldi og dráp. Reynsla fólks er því hreint og beint sú að Orð Guðs frelsar það frá því sem þjakar það.

 

Hvað gerist þegar skólabarn fær bók með biblíusögum?

Kennararnir sem ég hitti sögðu að börnin tækju bækurnar með sér heim og læsu upphátt fyrir foreldra sína. Það eru því ekki bara börnin sem hafa ánægju af biblíubókunum, heldur öll fjölskyldan.

 

Er það vanalegt að börn lesi fyrir foreldra sína?

Við verðum að muna að 60 af hundraði fullorðinna íbúa á Haítí eru hvorki læs né skrifandi. Þess vegna er það alveg eðlilegt að börn lesi fyrir foreldra sína. Þetta vita sjálfsagt kennararnir, og þeir óska eftir því að fá að nota þetta til þess að gera lífið bærilegra fyrir börnin, foreldrana og allt samfélagið.

 

Hefur fólk efni á því að kaupa Biblíur?

Nei, peningar til biblíukaupa eru af skornum skammti. Atvinnuleysið á Haítí er um það bil 70 af hundraði og þau sem hafa vinnu, afla sér aðeins sem nemur 250 til 300 krónum á dag. Það nægir ekki til þess að lifa af.

 

Hverju vilt þú koma á framfæri frá Haítí til biblíuvinanna í Noregi?

Ef þið viljið hjálpa börnum á Haítí, vil ég biðja ykkur um að færa þeim Biblíur, Nýja testamenti og kristin hefti að gjöf til notkunar í skólunum. Það er einmitt þetta sem Hið haítíska biblíufélag biður um, og það eru Haítar sjálfir sem þekkja aðstæður best. Þörfin er mikil, og Biblíufélagið er tilbúið að prenta bækur og efni.

 

Hefur þú tekið með þér sérstakt biblíuvers frá Haítí?

Ég ætla að kveðja með uppáhaldsversi Brunette skólastjóra: «Þá svöruðu þeir: „Hefjumst handa við að byggja.“ Síðan tóku þeir til við þetta góða verk» (Nehemía 2.18). Börnin verða bráðum fullorðin og ef þú og ég getum gefið þeim Biblíuna í veganesti, gefum við þeim betri framtíð.

 

 

BIBLÍUGJÖFIN Á HAÍTI

TEXTI: HANS J. SAGRUSTEN OG ANN-CATHERINE KVISTAD.

MYND: ANDREA RHODES, SAMEINUÐU BIBLÍUFÉLÖGUNUM

ÍSLENSK ÞÝÐING: ÞORGILS HLYNUR ÞORBERGSSON