Af ávöxtum þeirra

15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. 16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. 20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Á bjargi

21 Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.
22 Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? 23 Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.
24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. 25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. 27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans 29 því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.