21 Konungur sagði nú við Jóab: „Ég hef gert upp hug minn í þessu máli. Farðu og sæktu unglinginn Absalon.“ 22 Jóab varpaði sér fram á ásjónu sína, sýndi konungi lotningu, kvaddi hann og sagði: „Nú veit ég, þjónn þinn, að ég nýt velvildar þinnar, herra minn og konungur. Konungur hefur gert það sem þjónn hans bað um.“
23 Því næst hélt Jóab af stað og fór til Gesúr og kom aftur til Jerúsalem með Absalon. 24 Þá sagði konungur: „Hann á að fara heim til sín. Hann má ekki ganga fyrir mig.“ Absalon fór því heim til sín og gekk ekki fyrir konung.

Davíð sættist við Absalon

25 Í öllum Ísrael var enginn eins dáður fyrir glæsimennsku og Absalon. Hann var lýtalaus frá hvirfli til ilja. 26 Öðru hverju þurfti hann að láta skera hár sitt því að það varð honum til trafala. Þegar hann lét skera það vó það tvö hundruð sikla á konungsvog. 27 Absalon eignaðist þrjá syni og eina dóttur sem hét Tamar. Hún varð mjög fögur kona.
28 Absalon bjó nú í tvö ár í Jerúsalem án þess að ganga fyrir konung. 29 Þá sendi Absalon mann á fund Jóabs til þess að biðja hann að fara til konungs en Jóab sinnti ekki boði hans. Hann sendi þá öðru sinni eftir honum en hann vildi samt ekki koma. 30 Þá sagði Absalon við menn sína: „Jóab á byggakur sem liggur að landi mínu. Farið og kveikið í honum.“ Menn Absalons brenndu þá akurinn.
31 Þá fór Jóab heim til Absalons og spurði: „Hvers vegna kveiktu menn þínir í akri mínum?“ 32 Absalon svaraði: „Ég sendi menn til þín með þessi boð: Komdu til mín. Ég ætla að senda þig til konungsins með þessi boð: Til hvers kom ég frá Gesúr? Mér hefði verið nær að vera þar um kyrrt. En nú vil ég ganga fyrir konunginn. Ef ég er enn sekur getur hann drepið mig.“
33 Jóab gekk síðan fyrir konung og skýrði honum frá þessu. Hann kallaði Absalon fyrir sig. Hann kom til konungs, varpaði sér til jarðar frammi fyrir honum og konungur kyssti Absalon.