Aðeins um 1000 Biblíur seljast árlega á Íslandi. Það er verðugt umhugsunarefni þar sem um 4000 ungmenni fermast á ári hverju. Spurningar vakna þar sem áður heyrði það nánast til undantekninga að fermingarbarn fengi ekki Biblíu að gjöf.

Nýverið þegar ég spurði afa einn hvort hann ætlaði að gefa barnabarni sínu Biblíu í fermingargjöf svaraði hann því til að ekki væri í tísku að gefa Biblíu. Þá minntist ég frásögu sem ég heyrði þegar ég var barn, um hjón sem gáfu barnabarni sínu, sem þá var að fermast, Biblíu að gjöf. Inn í Biblíuna höfðu þau sett veglega peningagjöf í umslagi. Mörgum árum síðar, þegar hjónin voru látin og  fermingardrengurinn var orðinn fullorðinn karlmaður, tók hann fram bókina góðu og ákvað að fletta henni. Þá datt út peningaumslagið. Hann hafði aldrei opnað Biblíuna og vissi ekki af umslaginu. Peningarnir voru orðnir lítils virði og hann nagaði sig í handarbökin yfir því að hafa ekki opnað Biblíuna sína fyrr.

Með því að gefa Biblíu erum við að hvetja viðkomandi til að kynna sér boðskap hennar. Áhrif og gildi Biblíunnar eru mikil, bæði trúarleg og menningarleg. Biblían hefur verið þýdd á fjölda tungumála og er einhver mest selda bókin í heiminum.
Biblían er góð gjöf, hvort sem um er að ræða skírnargjöf, afmælisgjöf, fermingargjöf, brúðkaupsgjöf eða bara tækifærisgjöf.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri HÍB