Eftir Andrew Tomashewsky

Þetta ætlar að verða enn ein slík nóttin, hugsa ég með sjálfum mér. Ég get ekki sofið og hugurinn er á fleygiferð, en stundum fastur í hlutlausum gír. Ég er í raun ekki að hugsa um neitt sérstakt. Klukkan er þrjú um nótt. Ég er glaðvakandi og velti því fyrir mér hvers vegna það gerist — aftur.

Kvíði minn sætir færis á þeim stundum þegar ég er vakandi og sprettur fram um þrjúleytið að næturlagi. Úr verða spurningar sem mynda „kvíðalista“. Eru það peningar? Nei, ekki í nótt. Hurðarhúnn sem ég hef ætlað að laga en hef ekki enn komið því í verk? Ekki heldur. Hvers vegna skyldu áætlanir mínar ekki ganga eftir? Já, þannig liggur í því í þetta skiptið.

Ég lifi í þeirri von enn eina nóttina að hvinurinn frá viftunni muni geta svæft mig. Stundum tekst það, stundum ekki. Stundum dugar að tala við Guð í bæn, en stundum halda hugsanir mínar aftur af þeim tilraunum. Klukkan er hálffimm um nótt. Bráðum þarf ég að fara á fætur og ég veit að ég verð ringlaður við tilhugsunina.

Ég á í baráttu þessar svefnlausu nætur og að þeim liðnum þarfnast líkami minn og sál endurnæringar. Það er kaldhæðni örlaganna að sá friður sem ég öðlast kemur þegar síminn vekur mig og það minnir mig á Harmljóðin 3.22-23. Á hverjum morgni sé ég þessa daglegu áminningu. Það skiptir engu máli hversu óvær nóttin hefur verið, nýr dagur ber með sér fyrirheit um trúfesti Guðs og miskunn.

Ef þú glímir við þinn eigin kvíða í dag, býð ég þér að opna Biblíuna þína og minna sjálfan þig á þann frið og þá gleði sem þú átt í Kristi. Þessir fjórir ritningarstaðir koma þér á sporið:

Harmljóðin 3.22-23: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín.

Lúkasarguðspjall 1.46-47: Og María sagði: Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

Davíðssálmur 23.2b-3a: …leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína,

Jóhannesarguðspjall 4.14: …en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.

Andrew Tomashewsky er tæknifræðingur og listakennari við kirkjurekna skóla á Great Lakes Bay svæðinu í Michigan. Hann styður Detroit Tigers í blíðu og stríðu. Hann dundar sér við ljósmyndun og aðstoðar kirkjur og skóla við að tengjast netinu.

http://http://news.americanbible.org/blog/entry/bible-blog/bible-verses-that-give-me-peace-when-im-anxious